Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þóttist vera læknir og gaf læknisráð á Facebook

17.06.2021 - 05:35
epa09266603 General view of Rigshopitalet, where Denmark's national soccer team player Christian Eriksen is hospitalized, in Copenhagen, Denmark, 13 June 2021. Chritian Eriksen collapsed on the pitch towards the end of the first half of the UEFA EURO 2020 match between Denmark and Finland on 12 June 2021, and received medical treatment on the pitch before being stretchered off and rushed to the nearby Rigshopitalet.  EPA-EFE/Thomas Sjoerup  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Kona nokkur notaði skilríki læknis og þóttist þannig vera læknir og kastaði með því ryki í augu þúsunda Dana sem hafa leitað ráða í Facebook hópi sem gengur undir heitinu Spyrðu lækni um kórónuveiruna.

Hópurinn er verðlaunað framtak um 200 lækna sem hafa unnið í sjálfboðavinnu í á annað ár en þar hafa fróðleiksþyrstir Danir fengið margvíslegar upplýsingar um faraldurinn.

Læknum er brugðið

Nú hefur komið á daginn að eitt þeirra sem gefið hafa ráð og svarað spurningum er alls ekki læknir heldur kona sem þóttist vera læknir sem raunverulega hefur stöðu við sjúkrahúsið í Viborg.

Læknum er vitaskuld brugðið en svikin hafa staðið yfir í meira en ár eða frá því í apríl á síðasta ári.

Konan sem lét sem hún væri læknir er ófaglærður aðstoðarmaður hjúkrunarfræðinga við sjúkrahúsið í Viborg, ráðin í gegnum starfsmannaþjónustu sem upplýsir danska ríkisútvarpið um að hún gangi ekki lengur vaktir meðan málið er rannsakað. 

Tilviljun varð til að svikin komust upp

Í umfjöllun DR eru dæmi um tilsvör „læknisins“ birt en svikin uppgötvuðust nánast fyrir tilviljun.

Elif Bayram Orbe, læknir við sjúkrahúsið í Herlev sem átti hugmyndina að framtakinu, komst á snoðir um að eitthvað væri óhreint í pokahorni konunnar þegar öllum læknum var færð gjöf fyrir þátttökuna.

Læknirinn í Viborg kom alveg af fjöllum þegar henni barst óvæntur pakki og hafði samband við Orbe. Fljótlega áttuðu þau sig á að svik voru í tafli og tilkynntu málið til lögreglu sem nú rannsakar málavöxtu.

Grafalvarlegt mál segir yfirlæknir

Læknirinn sem varð fyrir barðinu á svikahrappnum hefur sjálf ekki viljað tjá sig um málið en Lars Østergaard, yfirlæknir við háskólasjúkrahúsið í Árósum, segist aldrei hafa upplifað annað eins en það sé grafalvarlegt að einhver geti þóst vera læknir.

Læknirinn starfar alla daga í Árósum og hefur því lítið verið á sjúkrahúsinu í Herlev en Østergaard segir allt kapp lagt á að styðja hana eftir áfallið. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV