Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óbólusettir ættu ekki að fara til útlanda

Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Sóttvarnalæknir ráðleggur fólki, sem er ekki fullbólusett eða með vottorð um fyrri sýkingu, að ferðast ekki til áhættusvæða. Nú eru öll lönd metin áhættusvæði nema Grænland. Sóttvarnalæknir bendir á að almennt komi vörn bóluefnis ekki fram fyrr en í fyrsta lagi 7 til 14 dögum eftir að bólusetningu er lokið.

Þetta kemur fram á vef landlæknis.

Þar segir að sóttvarnalæknir telji ekki tímabært að breyta áhættusvæðum nú og eru því öll lönd í þeim flokki nema Grænland.

Sóttvarnalæknir ráðleggur áfram íbúum Íslands sem ekki eru fullbólusettir eða með staðfesta fyrri sýkingu frá ferðalögum á áhættusvæði. „Þeir sem hyggja á ferðalög eru beðnir um að sýna varúð og sinna persónulegum sóttvörnum og nota andlitsgrímur þar sem það á við.“

Hann áréttar jafnframt að vörn bóluefnis komi ekki fram fyrr en í fyrsta lagi 7 til 14 dögum eftir að bólusetningu er lokið.

Þá sé ekki víst að bólusetning með COVID-19 bóluefni veiti vörn hjá öllum sem fá bólusetningu. Það eigi við um öll bóluefni. „Eins er ekki vitað um þennan sjúkdóm hve lengi ónæmi varir,“ segir sóttvarnalæknir . Allir ættu því að fara í sýnatöku ef þeir finna fyrir einkennum.

Helmingur allra sem eru 16 ára og eldri telst nú fullbólusettur og 78 prósent íbúa á þessum aldri hafa fengið að minnsta kosti einn skammt. Stjórnvöld stefna að því að allir, sem til stendur að bólusetja, verði búnir að fá boð í bólusetningu þann 25. júní.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV