Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Obamacare „komið til að vera“

17.06.2021 - 21:30
epa09279885 A view of the Supreme Court in Washington, DC, USA, 17 June 2021. The Supreme Court dismissed a challenge to the Affordable Care Act and delivered a unanimous defeat to LGBT couples in a case over whether the city of Philadelphia could refuse to work with a Roman Catholic adoption agency whose religious beliefs prevent it from working with same sex foster parents.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði í dag kröfu Repúblikana um að fella úr gildi heilbrigðistryggingakerfi Bandaríkjanna, sem oftast er kallað Obamacare. Hópur Repúblikana, undir stjórn ríkisstjórnar Texas, freistaði þess að láta reyna á það fyrir dómstólnum hvort lögin sem liggja til grundvallar Obamacare stæðust stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Heilbrigðistryggingakerfi í Bandaríkjunum, Affordable Care Act, sem oft er kennt við Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, tók gildi 23. mars árið 2010. Kerfinu var ætlað að bæta gæði heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum, fækka ótryggðum einstaklingum og draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hét því í kosningabaráttu sinni að afnema löggjöfina.

Repúblikanar hafa ítrekað reynt að fella kerfið úr gildi. Í þetta skiptið töldu sjö af níu dómurum Hæstaréttar engan lagagrundvöll fyrir málshöfðun Repúblikana og dómurinn taldi ekki ástæðu til að skera úr um það hvort lögin stæðust stjórnarskrá. Dómararnir tveir sem greiddu sératkvæði voru íhaldsmaðurinn Samuel Alito, og Neil Gosuch, sem er einn þeirra sem Trump skipaði. Alito furðaði sig á því opinberlega hversu langt Hæstiréttur væri tilbúinn að ganga til að standa vörð um Obamacare.

Joe Biden Bandaríkjaforseti fagnaði niðurstöðunni í dag og sagði hana „meiriháttar sigur fyrir alla þá sem njóta góðs af Obamacare“. Niðurstaðan er augljós sigur fyrir forsetann, því hann hefur heitið því að verja kerfið og víkka það út. Obama sagði einnig í dag að niðurstaðan sýndi að löggjöfin væri komin til að vera. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV