Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

MDE hafnar kæru Ólafs vegna rannsóknarnefndar Alþingis

17.06.2021 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu vísaði í morgun frá kæru Ólafs Ólafssonar vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck og Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans. MDE hafnar því að umgjörð og málsmeðferð nefndarinnar geti talist sakamálameðferð. Ef Ólafur telji að finna megi ærumeiðingar í skýrslunni verði slíkt mál að fara fyrir íslenska dómstóla. Ólafur Ólafsson segir í yfirlýsingu að hann ætli nú að meta hvort hann kjósi að höfða mál á hendur ríkinu fyrir dómstólum hér.

Ólafur kærði málsmeðferð rannsóknarnefndarinnar til Mannréttindadómstóls Evrópu um miðjan júlí 2017.

Taldi hann að umgjörð og málsmeðferð nefndarinnar hefði falið í sér sakamál og að niðurstaða hennar jafngilti refsingu, án þess að hann hefði notið nokkurra þeirra réttinda sem sakborningar ættu rétt á. Þá hefði nefndin ekki tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem hann kom á framfæri við hana skrifleiðis.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem var formaður umræddrar rannsóknarnefndar, segir á Facebook-síðu sinni að Mannréttindadómstóllinn hafi með afgerandi hætti hafnað að nefndin hefði brotið gegn rétti Ólafs til réttlátrar málsmeðferðar.

Hann segir að ef niðurstaðan hefði orðið Ólafi í hag hefðu rannsóknarnefndir eins og þær þekkist nú líklega heyrt sögunni til. „Rannsóknarnefndir verða því áfram úrræði sem Alþingi getur nýtt til að varpa ljósi á stóru málin í samfélaginu.“

Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar var mjög skýr. Stjórnvöld voru skipulega blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar á Búnaðarbankanum. Nefndin taldi sig hafa sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hefði í reynd aldrei verið fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8 prósenta hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi.

Kjartan Bjarni sagði þegar hann kynnti skýrsluna að nefndin hefði ekki rannsakað refsiverða háttsemi og að möguleg brot væru hugsanlega fyrnd. Ólafur sagði skýrslu nefndarinnar vega alvarlega að orðspori hans og æru og að vinna hennar hefði verið einhliða árás á hann. Hann neitaði að koma fyrir rannsóknarnefndina.

Ólafur Ólafsson segir í yfirlýsingu að hann ætli að meta hvort hann kjósi að höfða mál á hendur ríkinu fyrir dómstólum hér. „Ég mun meta þessa niðurstöðu, en áhugi minn á að reka mál fyrir íslenskum dómstólum er lítill að fenginni reynslu og tímanum sjálfsagt betur varið til uppbyggilegri mála,“ segir Ólafur Ólafsson.

Tyge Trier, danskur lögmaður sem sótti málið fyrir hönd Ólafs, segir að líta megi á þessa niðurstöðu sem aðvörun til íslenskra stjórnvalda. Í hans huga sé enginn vafi á að brotið hafi verið á rétti Ólafs til friðhelgi einkalífs og ætlaðs sakleysis. „Mikilvægt er að Mannréttindadómstóllinn hefur í dag vakið athygli á þeim brotalömum sem Ólafur sýndi fram á og byggt á nærri 30 ára reynslu minni á þessu sviði, er mitt mat að brotið hafi verið á rétti Ólafs til einkalífs og til að vera talinn saklaus,“ segir Tyge Trier, lögmaður Ólafs.