Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kínversku geimfararnir lagðir af stað í för sína

17.06.2021 - 02:17
epa09278427 Chinese astronauts Tang Hongbo, Nie Haisheng, and Liu Boming wave during a departure ceremony before the launch of the Long March-2F carrier rocket, carrying the Shenzhou-12 at the Jiuquan Satellite Launch Center, in the Gobi Desert, northwest of China, 17 June 2021. China launches Shenzhou-12 spacecraft carrying three crew members Tang Hongbo, Nie Haisheng, and Liu Boming to the orbiting Tianhe core module for a three-month mission on 17 June. It is the first spaceflight in almost five years where China sends humans into space.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínversku geimfararnir þrír sem eru á leið að Tiangong geimstöðinni lögðu upp í ferð sína úr Góbí eyðimörkinni á öðrum tímanum í nótt. Geimskotið tókst giftusamlega.

Þremenningarir eru fyrstu mennirnir sem dvelja í geimstöðinni og ætlunin er að þar verði þeir næstu þrjá mánuði. Þetta er því lengsta ferð í sögu kínversku geimferðastofnunarinnar.

Fjöldi fólks var viðstaddur þegar eldflaugin sem kennd er við Gönguna miklu bar Shenzhou-12 geimfarið upp í himinhvolfið en skömmu áður kvöddu geimfararnir fjölskyldur sínar og starfsfólk geimhafnarinnar við hátíðlega athöfn.

Um það bil tíu mínútum eftir geimskotið losnaði geimfarið frá eldflauginni við mikil fagnaðarlæti á jörðu niðri. Farið var þá komið á sporbaug um jörðina en það tengist við meginhluta geimstöðvarinnar sem hefur verið á sporbaug frá því í lok apríl.  

Ætlunin er að geimfararnir þrír reyni öll kerfi geimstöðvarinnar, fari í geimgöngur og geri vísindatilraunir á meðan á dvölinni stendur. Ætlun Kínverja er að senda þrjú mönnuð geimför á loft á næsta ári og ellefu samtals.

Þrotlaus þjálfun er að baki ferðar geimfaranna þriggja, þeir hafa varið um sex þúsund klukkustundum við margvíslegar æfingar sem eiga að gera þeim kleift að dvelja langdvölum í geimstöðinni.