Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Katrín: „Ég finn að það er hugur í þjóðinni“

17.06.2021 - 11:50
Mynd: Skjáskot / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði að eftir erfiða tíma kæmu oft framfaraskeið og Íslendingar ættu nú tækifæri til að hefja slíkt skeið. „Ég finn að það er hugur í þjóðinni sem fagnar nú árangri í heimsfaraldri,“ sagði Katrín þegar hún hélt ávarp á hátíðarstund á Austurvelli í tilefni af 17. júní. Fram undan væri tími viðspyrnu þar sem takast þyrfti á við stórar áskoranir og byggja upp Ísland.

Samkomutakmarkanir setja sinn svip á hátíðarhöld 17. júní og má segja að þau séu hófsöm en hefðbundin. 

Í morgun fór fram hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni og Guðni Th. Jóhannesson lagði blómsveig frá íslensku þjóðinni við minnisvarða Jóns Sigurðssonar.  Klukkan rúmlega ellefu hófst síðan hátíðardagskrá á Austurvelli með ávarpi forsætisráðherra. 

Katrín sagði að kannski hefði kórónuveirufaraldurinn gert Íslendinga að meiri þjóð en þeir hefðu lengi verið. „Fólk sem allt í einu varð einangrað frá umheiminum, fann nú áþreifanlega fyrir því að allt sem hver og einn gerði – skipti okkur öll máli.“

Hún viðurkenndi að síðustu fimmtán mánuðir hefðu verið erfiðir en þeir hefðu líka verið lærdómsríkir, „vegna þess að þeir hafa minnt á að samfélag er ekki aðeins orð heldur okkar aðferð við að vera til ásamt öðrum.“ Það væri sigur þekkingarleitar, verkvits og samstöðu að þrír af hverjum fjórum 16 ára eldri væru komnir með fyrsta skammt bóluefnis.

Katrín sagði að eftir erfiða tíma kæmu oft framfaraskeið og nú væri tækifæri til að hefja slíkt skeið.  „Ég finn að það er hugur í þjóðinni sem fagnar nú árangri í heimsfaraldri og hvert og eitt okkar upplifir sterkt hvers virði handabandið er – faðmlagið – hvers virði mannleg samskipti og samstaða eru í stóra samhenginu.“

Áfram þyrfti að takast á við loftslagsvána og gera það eins og gert var í faraldrinum. „Á grundvelli rannsókna og gagna og með sem bestum upplýsingum til allra þannig að við getum lagt okkar af mörkum til að ná árangri í þeirri baráttu.“

Forsætisráðherra sagðist hafa hugsað mikið til barna og ungmenna. Þau myndu seint gleyma þessum faraldri og hún vonaði að fyrir þau flest yrði hann brátt aðeins minning um skrýtna tíma. „Við hljótum að taka ítrekaðar vísbendingar um vanlíðan barna og ungmenna alvarlega.“

Samvera og samskipti skipti þar mestu, því hvort sem litið væri til hamingjurannsókna Harvard-háskóla eða Hávamála væri maður manns gaman. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV