Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hundur numinn á brott og kona festist í fatagámi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Síðdegis í gær réðist maður nokkur inn á heimili í Kópavogi og hafði með sér hund þaðan sem hann staðhæfði að hann ætti. Lögreglu var tilkynnt um málið og hefur eftir húsráðanda að ekki sé rétt að sá sem tók hundinn eigi hann.

Börn á heimilinu urðu skelkuð við aðfarir mannsins, lögregla segist vita hver hann sé en hann er nú grunaður um húsbrot, þjófnað og líkamsárás.

Fimm slys tengd léttum bifhjólum og rafskútum urðu í gærkvöld og í nótt og hlaut fólk nokkra áverka í þeim öllum. Auk þess kviknaði eldur í þremur bifhjólum við fjölbýlishús í Efra-Breiðholti.

Talsvert tjón varð á húsinu af völdum eldsins og málið er í rannsókn. Einnig kom upp eldur við skóla í Efra-Breiðholti í gær án þess að miklar skemmdir yrðu.

Á níunda tímanum í gærkvöldi fékk lögreglan svo tilkynningu um konu sem virtist sitja föst í fatasöfnunargámi í Neðra-Breiðholti en henni tókst að losa sig af sjálfsdáðum og hjóla brott að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV