Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Handtaka í tengslum við morð á 12 ára stúlku í Botkyrka

17.06.2021 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd: svt
Lögregla í Svíþjóð hefur mann í haldi sem talinn er eiga aðild að því að tólf ára stúlka var skotin til bana í bænum Botkyrka nærri Stokkhólmi í ágúst síðastliðnum.

Sænska ríkissjónvarpið hefur þetta eftir fréttum í Aftonblaðinu en lögregla segir manninn hafa verið handtekinn við reglubundið eftirlit. Hann er einnig grunaður um alvarlegt vopnlagabrot en þegar hafa tveir aðrir verið handteknir í tengslum við morðmálið. 

Stúlkan var á gangi með hundinn sinn þegar hún var skotin til bana en ekki er talið að hún hafi verið skotmark morðingjanna heldur meðlimir glæpagengis. Álitið er að þeir hafi klæðst skotheldum vestum.

Morðið vakti mikla athygli og fjöldi íbúa í Botkyrka hefur sagst vilja flytja þaðan vegna mikilla og tíðra átaka milli glæpagengja á svæðinu.