Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það voru aldrei neinar málamiðlanir"

Mynd: RÚV / RÚV

„Það voru aldrei neinar málamiðlanir"

16.06.2021 - 08:28

Höfundar

Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Sigur Rós heiðursverðlaun. Hljómsveitin varð heimsfræg þegar platan Ágætis byrjun kom út 1999 og þeir segjast hafa vitað að þeir væru með eitthvað sérstakt í höndunum þegar platan var tilbúin. Að hafa trú á sjálfum sér, hafa gaman af því sem maður gerir og gera aldrei málamiðlanir er lykillinn að velgengninni, að sögn söngvara Sigur Rósar.

Upphaf Sigur Rósar má rekja til vináttu Jóns Þórs Birgissonar, eða Jónsa, og Ágústs Ævars Gunnarssonar. Þeir kynntust í Iðnskólanum og uppgötvuðu fljótlega að þeir höfðu svipaðan tónlistarsmekk. Þeir vildu gera lag saman og fóru í hljóðver og tóku upp Fljúgðu fyrir safnplötuna Smekkleysa í hálfa öld. Upptökurnar gengu svo vel að þeir ákváðu að stofna hljómsveit og fljótlega bættist bassaleikarinn Georg Hólm í hópinn. „Hún er skírð eftir systur minni sem heitir Sigurrós og fæddist á sama tíma og hljómsveitin var stofnuð. Þess vegna var hún skírð í höfuðið á henni,” segir Jónsi.

Tríóið Sigur Rós tók fljótlega upp plötuna Von sem kom út nokkrum árum síðar. Til að fagna útgáfunni hélt hljómsveitin útgáfutónleika í Valskapellunni á Hlíðarenda í desember 1997. Jónsi og Ágúst fóru í viðtal á Rás 2 strax eftir tónleikana þar sem þeir töluðu um hljómsveitina. „Ég og hann kynntumst í Iðnskólanum, þá uppgvötuðum við að við höfðum sama tónlistarsmekk. Þá langaði okkur að gera flæðandi tónlist. Fórum svo í hljóðver og tókum upp eitt lag fyrir Smekkleysu plötuna,” segir Jónsi. „Þetta átti bara að vera eitt lag. Bara skemmtun fyrir okkur til að eiga saman,” segir Ágúst.

Fiðluboginn sem Jónsi notaði til að spila á gítarinn vakti strax athygli á upphafsárum Sigur Rósar en hann segir að hálfgerð tilviljun hafi ráðið því að hann byrjaði að nota hann. Boginn var upphaflega ætlaður Georg bassaleikara. „Held að Gústi hafi gefið Gogga fiðluboga í jólagjöf fyrir bassann. Síðan vorum við að æfa ég var að spila á gítarinn bara venjulega. Svo fékk ég að prófa fiðlubogann hjá Gogga og æxlaðist svoleiðis, ég gegnum reverb, líka þá varð þetta dálítið stórt. Eins og gallað selló,” segir Jónsi. „Mér gekk líka ekkert voðalega vel með þennan fiðluboga,” bætir Georg við. 

Eftir að platan Von kom út gekk Kjartan Sveinsson til liðs við Sigur Rós en hann hafði hjálpað við ýmislegt í hljómsveitinni áður en hann gekk formlega til liðs við þá. Í kjölfarið hófst svo vinna við næstu plötu, Ágætis byrjun. Þarna hafði Von selst í rúmlega 400 eintökum en engu að síður hafði Smekkleysa fulla trú á hljómsveitinni. „Smekkleysa stóð með okkur á sínum tíma. Platan kostaði hellings pening, mig minnir að hún hafi kostað 4,1 milljón árið 1999,” segir Kjartan Sveinsson í viðtali í Rokklandi þegar platan Ágætis byrjun átti 20 ára útgáfuafmæli, en platan kom út 12. júní 1999. 

Kjartan þakkar Ása og Þór Eldon hjá Smekkleysu sérstaklega fyrir trúna sem þeir höfðu á Sigur Rós. Hann segir að hljómsveitin hafi fengið leyfi til að hljóðblanda lögin aftur og aftur og sveitin hafði afnot af þremur hljóðverum til að klára plötuna. „Við þurftum þennan tíma til að fullkomna þetta,” segir Kjartan og Georg bendir á að þetta hafi líka verið fullkomnunarárátta hjá þeim. „Við vildum hafa þetta eins og við vildum hafa þetta. Engar málamiðlanir. Það einkenndi þessa hljómsveit, sérstaklega framan af. Það voru engar málamiðlanir. Aldrei,” segir Kjartan.

Þegar platan var loks tilbúin vissu þeir strax að þeir væru með eitthvað sérstakt í höndunum. „Það var einhver tilfinning, svona innan í manni, þetta er góð plata, maður bara vissi það,” segir Georg. „Ég man eftir ákveðnum tímapunkti þar sem við föttuðum: „Bíddu nú við, þetta er eitthvað. Þetta á eftir að fara víðar. Við þurfum kannski ekki endilega alltaf að spila á Gauknum,” segir Kjartan.

Þeir Kjartan og Georg höfðu alveg rétt fyrir sér. Platan fór víða og hljómsveitin spilaði út um allan heim í kjölfarið. Lög Sigur Rósar voru mikið notuð í kvikmyndir og þætti og hróður þeirra jókst stöðugt. Eftir því sem plöturnar urðu fleiri, því vinsælari varð Sigur Rós. Tónleikaferðirnar urðu stærri og viðameiri og ekki leið á löngu áður en hljómsveitin var komin í hóp áhrifamestu hljómsveita heims. Eftir að Sigur Rós gaf út sína fimmtu breiðskífu fór Jónsi í viðtal á Rás 2 þar sem hann var spurður hver lykillinn að velgengni þeirra væri. „Vera sannur sjálfum sér og hafa gaman af því sem maður er að gera. Engar málamiðlanir. Held að það sé bara málið,” segir Jónsi.

Í tilefni af því að hljómsveitin Sigur Rós fékk heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna fer Ólafur Páll Gunnarsson yfir feril Sigur Rósar fimmtudaginn 17. júní klukkan 16 á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Þökkuðu landanum góðar viðtökur við „furðumúsík“ sinni