Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snjór stoppar ekki göngugarpa á Laugaveginum

16.06.2021 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Vegurinn í Landmannalaugar var opnaður fyrir nokkrum dögum og skálaverðir Ferðafélagsins eru að standsetja skála víða um land. Fyrstu göngugarpar sumarsins eru að búa sig í Laugavegsgöngu þrátt fyrir talsverðar fannir, sérstaklega í Hrafntinnuskeri.

„Það er bara verið akkúrat þessa stundina að standsetja skálana, tengja vatn og koma öllu í gang. Það er töluvert mikill snjór uppi í Hrafntinnuskeri og þar í kring. Það hefur líka verið kalt og hefur snjóað undanfarna daga svo það er svolítið af snjó,“ segir Anna Dóra Sæþórsdóttir, forseti Ferðafélags Íslands. 

„Fyrstu ferðamennirnir eru mættir í Landmannalaugar og eru að gera sig klára að labba af stað. Þó það sé mikill snjór þarna þá er það ekkert mál ef þú ert með réttan búnað. Og fólk losnar við að fara öll gilin upp og niður, labbar bara á snjónum í staðinn,“ bætir hún við.

Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið landsins. Anna segir erfitt að meta hvort snjórinn sé óvenjulega mikill á leiðinni núna, stundum sé ekki hægt að opna inn í Landmannalaugar fyrr en um mánaðamótin júní/júlí. „Þetta er kannski nokkuð nærri meðallagi.“

Vel er bókað hjá Ferðafélaginu í skipulagðar ferðir og í gistingu í skála víða um land í sumar, enda margir sem hafa hug á því að ferðast innanlands. „Skálaverðir mæta á Kili um mánaðamótin. Þar sem ferðafélagið er með aðra skála eins og í Valgerðsstaði í Norðurfirði og í Hornbjargsvita, þar er öll starfsemi komin í gang og fyrstu ferðamennirnir komnir þangað. Svo þetta er allt að fara af stað hjá okkur.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV