Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Persónuvernd skoðar nafnbirtingar á vefsíðum dómstóla

Hæstiréttur Íslands.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Hæstiréttur birti dag nauðgunardóm þar sem nafn fórnarlambsins, ungrar stúlku, hafði ekki verið afmáð. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir Persónuvernd hafa óskað eftir upplýsingum frá dómstólunum um birtingu persónuupplýsinga í dómsúrlausnum.

DV greindi frá því fyrr í dag að dómur hefði verið birtur á vefsíðu Hæstaréttar án þess að nafn ungrar stúlku sem var nauðgað af tveimur mönnum hefði verið tekið út. Nafnið hefur nú verið tekið út og DV hefur eftir skrifstofustjóra Hæstaréttar að starfsfólkið harmi þessi mistök. 

Dómstólar bera sjálfir ábyrgð á því að birtingar dóma samræmist lögum. Persónuvernd hefur fengið fjölda ábendinga um að í úrskurðum og dómum sem birtir eru á vefsíðu dómstólanna megi finna persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinga, þar sem þær ættu að hafa verið afmáðar. Persónuvernd hefur verið í samskiptum við dómstólasýsluna vegna þess.

Í síðasta mánuði óskaði Persónuvernd svo formlega eftir skýringum frá dómstólum landsins, héraðsdómstólum, Landsdómi, Hæstarétti og Félagsdómi, á því hvernig birting tiltekinna dóma samrýmist ákvæðum persónuverndarlaga. 

Þá er einnig til skoðunar hjá Persónuvernd hvernig birting persónuupplýsinga í eldri dómum, sem upphaflega voru birtir í gildistíð eldri laga og reglna, samrýmist persónuverndarsjónarmiðum.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV