Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Neytendur úrræðalausir gagnvart samkeppnislagabrotum

16.06.2021 - 23:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að stjórnvöld bæti tafarlaust úr úrræðaleysi neytenda gagnvart samkeppnislagabrotum og breyti lögum til þess að neytendur geti sótt rétt sinn. Samtökin harma þau alvarlegu brot sem Eimskip og Samskip hafa orðið uppvís að og benda á að virk samkeppni þarfnist virks eftirlits.

„Stjórn samtakanna bendir þó á að þeir sem urðu fyrir brotunum þ.e.a.s. neytendur, bera skarðan hlut frá borði þar sem erfitt er fyrir þá sem verða fyrir samkeppnislagabrotum, þ.e.a.s. neytendur, að fá hlut sinn réttan. Hefði hins vegar tilskipun 2014/104/ESB verið innleidd eða sambærileg lög sett, væri einfalt fyrir brotaþola að sækja skaðabætur með einföldum hætti,“ segir í tilkynningu frá Neytendasamtökunum og að með lagabreytingu mætti tryggja að neytendur hér á landi hefðu sama rétt og í Evrópu. „Neytendur treysta á virka samkeppni og tilraunir til að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni er aðför að neytendum.“

Best að „ljúka þessu gamla máli með sátt“

Eimskip og Samkeppniseftirlitið undirrituðu í dag sátt vegna samkeppnislagabrota Eimskips á tímabilinu frá 2008 til 2013. Með sáttinni viðurkennir Eimskip að hafa átt í samfelldu samráði við keppinautinn Samskip á tímabilinu og greiðir einn og hálfan milljarð í sekt.

Í brotunum fólst samráð í breytingum á siglingakerfum, takmörkun á flutningsgetu, samráð um álagningu gjalda og afsláttarkjara, samráð um sjóflutninga beggja vegna Atlantshafsins og samráð um landflutningaþjónustu á Íslandi. Með sáttinni skuldbindur Eimskip sig jafnframt til þess að grípa til aðgerða sem vinna gegn því að brot endurtaki sig.

Á vefsíðu Eimskips er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra félagsins, að það sé mikilvægur áfangi að ljóka málinu með sátt: „ ...þó vissulega séu þetta þung skref að taka. Frá þeim tíma hefur orðið grundvallarbreyting á rekstri félagsins, nýir stjórnendur tekið til starfa, nýir eigendur komið að félaginu og stjórnarhættir bættir. Liður í þessum breytingum og þeirri vegferð sem við erum á var að ná fram sátt í þessu máli og nú hefur óvissu sem því fylgdi verið eytt. Þrátt fyrir neikvæðu fjárhagslegu áhrifin af sektinni var það mat stjórnar Eimskips að best væri fyrir heildarhagsmuni félagsins að ljúka þessu gamla máli með sátt.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV