Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Minni flokkar huga að framboðslistum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þegar rúmir þrír mánuðir eru til alþingiskosninga hefur fengist nokkuð skýr mynd á framboðslista flestra þeirra flokka sem bjóða fram til Alþingis.

Sex stærstu flokkar, samkvæmt síðasta Þjóðarpúlsi Gallup, hafa birt efstu sæti lista í nær öllum kjördæmum. Þetta eru Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri græn, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Píratar.

Aðeins vantar að birta lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, til að listar þessara flokka liggi fyrir, en í báðum kjördæmum verða prófkjör haldin um helgina.

Tveir flokkar, sem sæti eiga á þingi, eiga hins vegar eftir að birta lista sína, Miðflokkur og Flokkur fólksins.

Því til viðbótar stefna fjórir nýir flokkar á þing. Sósíalistar, sem mælst hafa með um 5-6% fylgi í könnunum eru þar á meðal, en einnig hafa Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, flokkur Guðmundar Franklíns Jónssonar, Frelsisflokkur Gunnlaugs Ingvarssonar og Landsflokkurinn, flokkur Jóhanns Sigmarssonar kvikmyndagerðarmanns, lýst yfir vilja til framboðs.

Flokkarnir munu allir stilla upp á lista.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn stefnir á að kynna lista sína í lok mánaðar. Frestur til að skila inn framboðum til uppstillingarnefndar er runninn út í öllum kjördæmum nema Norðaustur, þar sem hann rennur út á sunnudag.

Fimm manna uppstillingarnefnd er að störfum í hverju kjördæmi, en eftir að nefndirnar skila listum verða þeir bornir undir kjördæmaráð til staðfestingar.

Miðflokkurinn á níu þingmenn, en flestir þeirra gefa kost á sér til endurkjörs. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður hyggst þó láta af störfum í lok kjörtímabilsins. Þá hefur Sigurður Páll Jónsson, annar þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi, ekki gefið upp hvort hann sækist eftir endurkjöri.

Flokkur fólksins

Hjá Flokki fólksins hafa þrír oddvitar þegar verið kynntir. Inga Sæland formaður leiðir listann í Reykjavíkurkjördæmi suður, Tómas A. Tómasson kenndur við Tommaborgara leiðir í Reykjavíkurkjördæmi suður, en Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, er oddviti í Suðurkjördæmi.

Í samtali við fréttastofu segir Inga að um tuttugu mann hópur stjórnarmanna og annarra flokksmanna vinni nú að því að skipa á lista og skýr mynd sé komin á oddvitasæti. Stefnt sé að því að birta alla lista um miðjan júlí.

„Þetta er mikið ferli því við viljum fara vel yfir hlutina svo við lendum ekki í því sama og síðast,“ segir Inga og vísar þar til „Klausturdónanna“ sem hún hafi gefið oddvitasæti með slæmum afleiðingum.

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, skipuðu oddvitasæti á lista Flokks fólksins en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn eftir uppákomuna á Klaustri síðla árs 2018.

 Sósíalistaflokkurinn

Hjá Sósíalistum er að störfum slembivalin kjörnefnd ríflega þrjátíu flokksmanna, sem hefur það hlutverk að stilla upp á lista flokksins.

Auglýst hefur verið eftir tilnefningum meðal flokksmanna og geta þeir tilnefnt sjálfa sig eða aðra til starfsins. 

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, segir í samtali við fréttastofu að áætlega gangi að fá fólk í framboð, eftir því sem hann best veit, en hann á ekki sjálfur sæti í kjörnefndinni.

Birta á lista flokksins öðrum hvorum megin við verslunarmannahelgi, en Gunnar Smári segir að það verði ekki fyrr en þá sem kosningabaráttan hefjist af alvöru. 

Aðspurður segist Gunnar Smári ekki enn hafa gert upp við sig hvort hann sækist eftir sæti á lista en segir þó að margir hafi skorað á hann. 

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn

Tíundi flokkurinn sem stefnir á framboð í vor er Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Formaður hans er Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, en hann leiðir listann í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í hinu Reykjavíkurkjördæminu mun Glúmur Baldvinsson leiða listann.

Guðmundur Franklín segir í samtali við fréttastofu að búið sé að ákveða oddvita í öllum kjördæmum. „Við eigum bara eftir að taka saman kynningartexta um þá og láta taka myndir,“ segir hann.

Fréttatilkynning verði síðan send út næstkomandi miðvikudag, 23. júní.

Frelsisflokkurinn

Frelsisflokkurinn, flokkur Gunnlaugs Ingvarssonar, hyggur einnig á framboð. Gunnlaugur segir þó í samtali við fréttastofu að ekki liggi fyrir hvort af framboðinu verður. „Við verðum að finna fyrir öflugum stuðningi til þess að geta ýtt þessu úr vör,“ segir hann. Fyrir liggi þó að flokkurinn muni annaðhvort bjóða fram í öllum kjördæmum eða engu. Ekkert hálfkák.

Gunnlaugur segir að skýrast þurfi fyrir mitt sumar hvort af framboði verður, til að hægt verði að safna undirskriftum í tæka tíð.

Gunnlaugur var meðal hestu stuðningsmanna Guðmundar Franklíns Jónssonar, formanns Frjálslynda lýðræðisflokksins, í forsetakosningunum í fyrra og var hann meðal annars umboðsmaður framboðsins í Reykjavík.

Ekkert samstarf verður þó á milli flokkanna tveggja. Gunnlaugur segir það hafa verið flokksmönnum Frelsisflokksins mikil vonbrigði þegar Guðmundur Franklín stofnaði sinn eigin flokk og hafnaði öllu samstarfi.

Þá sé stefna Frjálslynda lýðræðisflokksins sömuleiðis í hrópandi ósamræmi við það sem Gunnlaugur og fleiri höfðu búist við. „Það litla sem hann hefur sett fram í stefnuskránni rímar ekki við það sem maður hélt að [Guðmundur Franklín] stæði fyrir,“ segir Gunnlaugur. Þar vanti andstöðu við EES-samninginn og stuðning við herta innflytjendastefnu.