Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margir svangir og þyrstir eftir bólusetningu

Ungir frumkvöðlar voru með mat og drykk til sölu fyrir utan Laugardalshöll í dag til að safna fyrir kostnaði við parkour-mót. Þeir segja að margir séu svangir og þyrstir eftir bólusetningu

Í dag var boðið upp á síðari sprautuna með bóluefni Moderna í Laugardalshöll. Tveir ellefu ára strákar sáu þar tækifæri til að safna fyrir kostnaði við íþróttamót og voru með ýmiss konar hressingu til sölu fyrir þá sem komu nýbólusettir út úr Höllinni.

„Við erum að selja mat hjá bólusetningum svo fólk verði ekki svangt og safna pening fyrir parkour móti,“  sögðu félagarnir Alexander Haukur Gribachev og Valtýr H. Óskarsson fyrir utan Laugardalshöll í morgun.  „Mamma hans gaf honum hugmyndina og svo hringdi hann í mig og svo bara byrjuðum við að gera þetta,“ sagði Valtýr.

Strákarnir hafa staðið við Laugardalshöll síðustu þrjá daga og segja að viðskiptin hafi verið allnokkur því margir séu svangir og þyrstir þegar þeir komi úr bólusetningu. Þeir segja að eldra fólk kaupi frekar af þeim heldur en það yngra og að Þristur og Kristall sé vinsælasta varan.

Þá selja þeir snúða og spurðir hvort þeir hafi bakað þá kveða þeir nei við. 

„En við ætlum kannski að baka næst,“ segir Alexander.

Strákarnir segja ágóðann af sölunni vera þó nokkurn, en eiga ekki von á að hann dugi fyrir kostnaði við parkour-mótið sem þeir stefna á að fara á. „Mömmur okkar bara borga restina. Við erum ekki alveg að borga allt.“