Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hefði hann getað sloppið?“

16.06.2021 - 20:18
Sonur manns sem lést á Landakoti í stóru hópsmiti í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins segir að sér hafi brugðið við að sjá skýrslu landlæknis um atburðinn í gær. Í henni sé teiknuð upp allt önnur mynd af orsökum hópsmitsins heldur en í úttekt spítalans sjálfs, sem virðist nú hálfgerður hvítþvottur.

Hópsmitið á Landakoti í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins í október í fyrra hafði afdrifaríkar afleiðingar. 150 manns smituðust, sjötíu sjúklingar og áttatíu starfsmenn. 15 sjúklingar létust, 13 á Landakoti og tveir á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka en smitaðir sjúklingar voru sendir þangað og á Reykjalund fyrir mistök. Í skýrslu landlæknis lýsir starfsfólk Landakots ringlulreið og upplausnarástandi þegar smitið barst um spítalann. Starfsfólk gerði sitt besta til að sinna sjúklingum en tugir fóru sjálfir í einangrun eða sóttkví.

Stjórnunarlegir þættir og hólfaskipting

Niðurstaða landlæknis er að ástæðuna megi rekja til stjórnunarlegra þátta, lélegrar hólfaskiptingar milli deilda, aðgerðastjórn hafi verið ábótavant, viðbragðsáætlanir hafi ekki gert ráð fyrir stöðunni og fræðslu starfsfólks um sóttvarnir og þjálfun hafi verið ábótavant. Kastljós bauð Landspítalanum að koma í þáttinn að bregðast við skýrslunni en stjórnendur þáðu ekki boðið. 

Gauti Kristmannsson var gestur í Kastljósi. Hann er sonur Kristmanns Eiðssonar sem dvaldi á Landakoti þegar smitið barst þangað, og beið þess að komast á hjúkrunarheimili. Hann var 84 ára þegar hann lést úr COVID-19.

Engar skýringar

Gauti segir að aðstandendur Kristmanns hafi aldrei fengið skýringar á því hvar eða hvernig Kristmann smitaðist. Þau hafi heimsótt hann í sóttvarnagöllum eftir að hann smitaðist og fengið þær fregnir að hann væri deyjandi. Kristmann var meðvitundarlítill þegar fjölskyldan heimsótti hann og dó svo einn inni á sjúkrastofu.

Landspítalinn skilaði skýrslu um hópsmitið þar sem fram kom að ástæðurnar mætti meðal annars rekja til slæms húsakosts og lélegrar loftræstingar. Stjórnendur spítalans hafa ekki viljað viðurkenna mistök. Gauti segir að eftir að hafa séð skýrslu landlæknis virðist skýrsla spítalans hálfgerður hvítþvottur. Honum hafi hitnað í hamsi þegar hann sá skýrsluna í gær. „Því virðist þessi fyrri skýrsla hafa verið svolítill hvítþvottur. Þessi skýrsla landlæknis segir bara hreint út að svona hafi ekki gerst á Vífilsstöðum sem væri sambærilegt húsnæði. Svo þá er kannski spurning hvernig var unnið með sóttvarnir á Landakoti, frekar en hvort húsnæðið hafi verið nógu gott.“

Vissi ekki að víða hefði pottur verið brotinn

„Á sínum tíma skildi ég vel að starfsfólkið var í ómögulegum aðstæðum og ég vildi aldrei saka það um eitt né neitt. En við þessa skýrslu í gær varð mér bylt við þegar ég sá hvað fór úrskeiðis. Ég veit ekki, en hann smitast ekki fyrr en tveimur dögum eftir að það var upplýst um smitið. Hefði hann getað sloppið? Og svo vissi ég ekki að það hefði verið svona pottur brotinn í hólfaskiptingu. Svo var það þessi upplýsingagjöf til starfsmanna, það þarf að koma upplýsingum rétt til fólks,“ segir hann.

Eftir á að hyggja finnst Gauta að spítalinn hefði mátt upplýsa aðstandendur betur: „En ég held að það hafi verið svo mikil spenna þarna að fólkið hafði ekkert ráðrúm til þess. Það var líka gríðarlega útsett fyrir smiti og þetta starf með farlama fólki er ekki auðvelt og ekki hægt að halda tveggja metra reglu.“