Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Framvísuðu bólusetningarvottorði og fóru í sýnatöku

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Erlendu ferðamennirnir tveir, sem greindust með kórónuveiruna í gær eftir að hafa verið á ferðalagi um Ísland, framvísuðu bólusetningarvottorði við komuna til landsins. Þeir fóru því í eina sýnatöku á landamærunum og reyndist sýnið neikvætt.

Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í skriflegu svari við fyrirspurnum fréttastofu. Hann veit ekki hvaðan ferðamennirnir eru en segir að þeir hafi farið víða. Þeir fóru í sýnatöku hér á landi þar sem þeir þurftu að framvísa neikvæðu COVID-vottorði fyrir næsta áfangastað.

Ekki liggur fyrir raðgreining á veirunni en ferðamennirnir verða í einangrun í farsóttahúsinu við Rauðarárstíg þar til þeir hafa jafnað sig.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri hjá almannavörnum, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ferðalag þeirra hér á landi hefði verið með þeim hætti að þeir hefðu ekki hitt marga. Búið væri að rekja ferðir þeirra og niðurstaðan væri sú að ekki þyrfti að senda neinn í sóttkví.

Í gær voru um þrjátíu í einangrun með virkt smit, þar af 23 á höfuðborgarsvæðinu. Fáir eru í sóttkví. Nýjustu tölur um covid-smit verða ekki uppfærðar fyrr en á föstudag þar sem á morgun er 17. júní.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV