Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjölmiðlafár og „góður tónn“ í Genf í dag

16.06.2021 - 19:54
Mynd: EPA-EFE / SPUTNIK POOL
Þriggja klukkustunda leiðtogafundi forseta Bandaríkjanna og Rússlands lauk á fjórða tímanum í dag. Pútín taldi fundinn hafa verið uppbyggilegan og Biden sagði gagnlegt að hittast augliti til auglitis.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem viðlíka viðburður er haldinn í Genf. Árið 1985 hittust þar Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Mikhaíl Gorbatsjev leiðtogi Sovétríkjanna og ári síðar í Höfða. Síðan þá hafa leiðtogafundirnir verið hátt í tuttugu. Sovétríkin urðu að Rússlandi og þar hefur Pútín verið við völd síðan um aldamótin síðustu. 

Fjölmiðlafólk stal senunni um stund

Það er óhætt að segja að augu heimsins hafi beinst að Genf í dag. Forsetarnir mættu um hádegisbil, Pútín aðeins á undan Biden. Þeir heilsuðust fyrir framan myndavélarnar áður en inn var haldið. Um þúsund fjölmiðlamenn er á staðnum til þess að fjalla um fundinn og uppi varð fótur og fit þegar mynda mátti forsetana í stuttu spjalli áður en fundarhöld hófust. Það andar greinilega ekki aðeins köldu milli ráðamanna ríkjanna heldur tróðst fjölmiðlafólk hvert fram fyrir annað. Þegar inn var komið stal það senunni um stund og forsetarnir fylgdust með. 

Engar stórar ákvarðanir en góður tónn

Væntingum var still vel í hóf fyrir fundinn. Það var hamrað á því að sambúð ríkjanna hefði ekki verið verri í áratugi, jafnvel verri nú en á tímum kalda stríðsins. Það er ekki langt síðan Biden var spurður í viðtali hvort hann liti á Pútin sem morðingja og hann svaraði því játandi. Af ummælum forsetana eftir fundinn að dæma virðist komin örlítið annað hljóð í samskiptin. „Svona almennt séð þá ríkti enginn fjandskapur, þvert á móti; fundurinn fór fram á uppbyggilegum nótum,“ sagði Pútín. 

Þeir héldu ekki sameiginlegan blaðamannafund heldur ræddu þeir við fréttamenn hvor í sínu lagi. Biden sagði að þeir Pútín hefðu skipst á skoðunum um fjölmörg mál, en tónninn í samræðum þeirra hafi verið góður. „Ég verð að segja ykkur að andrúmsloftið á fundinum var alveg ágætt. Ekki voru teknar neinar harkalegar ákvarðanir. Ef ég var ósammála þá sagði ég í hverju það fælist og hann sömuleiðis. En það var ekki gert í neinu ofboði,“ sagði Biden. 

Það má segja að það helsta sem hafi komið út úr fundinum sé góður tónn í viðræðum. Þá greindi vissulega á, þeir ræddu netárásir, fangelsun Alexei Navalny og önnur stór mál en enginn hækkaði róminn, eins og Biden sagði.