Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fengu áhlaup á garðinn sem er orðinn 200 metrar á lengd

16.06.2021 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Verktakarnir á gosstöðvunum eru leggja lokahönd á um 200 metra langan leiðigarð í syðsta hluta Geldingadala sem beinir hrauninu niður í Nátthaga. Hraun var nærri runnið yfir garðinn í gær, segir Jón Haukur Steingrímsson jarðverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu.

„Það kom mjög stórt og mikið áhlaup í hrauninu hérna niður. Þá fór að tínast hérna yfir þetta en við náum að komast í veg fyrir það og grípa það og koma þessu í réttan farveg.“

Hefði þessi spýja sem fór á ykkur farið niður hæðina? „já já hún hefði bara farið beint niður.“

Þá hefði hún endað í Nátthagakrika sem er einmitt verið að reyna að forðast. Þaðan er opið svæði í norður, vestur og suður. Garðurinn er gerður að fyrirskipun almannavarna. „Þetta er svolítið nálægt brúninni, það er ekki mikið efni að hafa til að byggja þetta upp. Við vinnum úr því sem við erum með í höndunum akkúrat núna og stefnum að því að skilja við þetta seinnipartinn í dag.“

Garðurinn er um 200 metrar á lengdina og fjórir metrar á hæð. „Hraunmegin er garðurinn á bilinu tveir til þrír metrar yfir þessu hrauni sem að við fengum á okkur, annars staðar þrír til fjórir þar sem að ekkert hefur runnið ennþá.“

Áður en hraun fór að flæða í Nátthaga voru gerðar tilraunir með varnargarða í syðsta Merardalnum. Annar þeirra hélt hrauninu aðeins í um viku en Jón Haukur segir að nú sé aðeins verið að reyna að stýra hrauninu niður í Nátthaga. „Meðan flutningskerfið hegðar sér svona þá heldur þetta, en þetta er ekki eins vel staðsett og hátt og menn hefðu viljað gera ef það hefði verið byrjað á þessu í tíma.“

Tungan runnið hratt inn Nátthaga

Mikið skrið hefur verið á hrauntungunni í Nátthaga undanfarna tvo daga. Viðbragðsaðilar sem hafa verið á svæðinu segja hana hafa hreyfst um sex til átta metra á klukkutíma í gær en lítil hreyfing er á henni núna. Jón Haukur segir að það séu nokkrar hugmyndir um leiðigarð og varnargarð í Nátthaga til að stýra hrauninu bestu leiðina niður í sjó. „Það á eftir að komast í gegnum umræðuna um það hvað er eðlilegt að gera og hvernig. Það verður að koma í ljós á næstu vikum eða dögum.“