Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ESB með löggjöf Ungverja til skoðunar

epa06014208 An image taken with a super wideangle lens shows an exterior view of the 'Le Berlaymont' building, hosting the EU Commission, in Brussels, Belgium, 07 June 2017.  EPA/OLIVIER HOSLET
Hús framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Mynd: EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst grandskoða ný lög í Ungverjalandi sem banna sýnileika samkynhneigðra í landinu. Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag, en talsmaður framkvæmdastjórnarinnar vildi ekki gagnrýna lagasetninguna fyrr en búið væri að fara vel yfir hana.

Ungverska þingið samþykkti á miðvikudag ný lög sem sögð eru eiga að vernda börn. Í lögunum er barnavernd og samkynhneigð stillt upp sem andstæðum pólum og látið að því liggja að annað sé ógn við hitt. 

Með lagabreytingunum mega nú þeir einir bjóða upp á kynfræðslu, sem hafa til þess sérstakt leyfi yfirvalda. Þá er fyrirtækjum bannað að auglýsa stuðning við hinsegin fólk ef börn undir 18 ára eru líkleg til að sjá auglýsingarnar.

Gagnrýnendur segja lögin brjóta gegn tjáningarfrelsi og brjóta gegn sáttmálum Evrópusambandsins, þar með talið Kaupmannahafnarskilyrðunum svokölluðu sem ný aðildarríki þurfa að uppfylla. Framkvæmdastjórn ESB er undir þrýstingi að grípa til aðgerða gegn stjórnvöldum í landinu.

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur frá því hann komst til valda árið 2010 verið iðinn við kolann að innleiða íhaldssamar breytingar og dregið úr réttindum minnihlutahópa. Þannig er samkynhneigðum nú óheimilt að ættleiða börn í landinu, auk þess sem ekki er lengur heimilt að breyta kynskráningu sinni.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV