Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Álfheiður neyðist til að draga sig úr söngkeppni BBC

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Álfheiður neyðist til að draga sig úr söngkeppni BBC

16.06.2021 - 15:25

Höfundar

Íslenska sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir heldur ekki áfram þátttöku í keppni breska ríkisútvarpsins í klassískum söng eftir að COVID-19 smit greindist í flugi hennar frá Íslandi.

Álfheiður Erla átti að koma fram í keppninni, sem fer fram í velsku höfuðborginni Cardiff, í kvöld. Söngkonan greinir frá því á Facebook-síðu sinni að velsk sóttvarnayfirvöld hafi haft samband við sig vegna þess að einhver sem greinst hafði með COVID-19 smit hefði setið nálægt henni í fluginu frá Íslandi.

Samkvæmt sóttvarnareglum þarf hún að sæta 10 daga sóttkví, eða til 18. júní, þrátt fyrir að hún hafi fengið neikvæðar niðurstöður úr þremur COVID-skimunum síðan hún lenti í Cardiff.

Í tilkynningu hennar á Facebook segir að það hryggi hana mjög að geta ekki tekið þátt í keppninni í kvöld. Skipuleggjendur hafi reynt allt hvað þeir gátu til að fá undanþágu en án árangurs.

Keppnin hófst 12. júní og ber heitið BBC Cardiff: Söngvari heimsins 2021. Í tilkynningu frá skipuleggjendum keppninnar segir að Álfheiði hafi verið boðið að taka þátt árið 2023, þegar keppnin fagnar 40 ára afmæli. Söngkonan Claire Barnett-Jones, frá Englandi, hleypur í skarðið fyrir Álfheiði í þetta sinn.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Íslendingur keppir í klassískri söngkeppni BBC