Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Afhjúpar spillingu í bresku lögreglunni

16.06.2021 - 09:53
Mynd: Wikioedia / Wikipedia
Skömmu eftir morðið á einkaspæjaranum Daniel Morgan 1987 fór fjölskylda hans að hafa áhyggjur af morðrannsókninni. Málið er enn óupplýst. Eftir átta ára rannsókn óháðrar rannsóknarnefndar var birt skýrsla um málið í dag. Niðurstaðan er að kerfislæg spilling í lögreglunni hafi hindrað framgang réttvísinnar og meðal annars birst í tengslum lögreglunnar við fjölmiðlaveldi Rupert Murdochs. Eitt eru allir sammála um: áratuga barátta bróður Morgans hefur haldið málinu vakandi.

Óhugnanlegt morð á vorkvöldi 1987

Kvöld nokkurt 1987 fannst Daniel Morgan myrtur með exi við krá, eftir fund við félaga sinn, Jonathan Rees. Þeir voru einkaspæjarar og ráku saman fyrirtæki. Eins og Alastair Morgan, bróðir Daniels, sagði í viðtali nýlega: vikurnar og dagana fyrir morðið hafði Daniel rætt spillingu innan lögreglunnar. Svo var hann allt í einu dáinn, það leit ekki vel út.

Morðið rætt fyrirfram af samstarfsmanni hins myrta

Síðar komst fjölskyldan að því að fyrir morðið hafði Rees ítrekað nefnt að hann vildi finna einhvern til að drepa Morgan og ætlaði síðan í samstarf við lögreglumann að nafni Sidney Fillery, í stað Morgans. Hvort tveggja gerðist: Morgan myrtur, Fillery hætti í lögreglunni og gekk til liðs við Rees.

Óupplýst morð frá 1987 – Höfuðborgarlögreglan ósamstarfsfús

Þessi saga er rakin í rannsóknarskýrslu, sem kom út í Bretlandi í dag. Theresa May þá innanríkisráðherra skipaði fimm manna óháða rannsóknarnefnd 2013, ekki síst vegna baráttu Alastair Morgans. Formaður hennar er Nuala O‘Loan.

Vinnan átti að taka ár en tók átta ár, meðal annars af því Höfuðborgarlögreglan sýndi lítinn samstarfsvilja. Skýrslan er upp á rúmar 1200 blaðsíður. Já, efnið er 34 ára gamalt morðmál en sagan engin fornsaga. Vitni, sem nefndin hafði samband við, neituðu að ræða við hana af ótta við hefndaraðgerðir.

Formaður rannsóknarnefndarinnar: morðrannsóknin markaðist af spillingu frá upphafi og gerir enn

Þegar O‘Loan kynnti niðurstöðurnar í dag sagði hún Höfuðborgarlögregluna algjörlega hafa brugðist fjölskyldu Morgans og rannsóknin markast af spillingu. Lögreglan hafi af óheiðarleika falið mistök eða afneitað þeim, eingöngu til að vernda ímynd sína.

Þetta er kerfisbundin spilling, sagði O‘Loan. Ýmislegt í rannsókn málsins ekki verið yfirsjónir heldur meðvitaðar ákvarðanir. Spillingin var augljós frá upphafi, sjálf morðrannsóknin röð mistaka.

Óupplýst morð, enginn dæmdur

Það skrifast einnig á reikning spillingar að þrátt fyrir fjórar lögreglurannsóknir og fleiri rannsóknir hefur enginn verið dæmdur fyrir morðið. Þeir Rees og Fillery voru ákærðir ásamt þremur öðrum en málinu á endanum vísað frá 2011.

Tengsl spilltra lögreglumanna, einkaspæjara og blaðamanna á Murdoch-miðlum

Verkefni nefndarinnar var að varpa ljósi á kringumstæður og rannsókn morðsins. Nefndin kannaði meinta aðkomu lögreglu að morðinu, hvernig spilltir lögreglumenn hefðu hindrað framgang réttvísinnar – og kannaði einnig tengsl einkaspæjara, lögreglumanna og blaðamanna á miðlum fjölmiðlakóngsins Rupert Murdochs. Skipulögð glæpastarfsemi kemur einnig við sögu.

Bók og hlaðvarp um málið

Alastair Morgan, bróðir Daniels, hefur margoft rætt þessi spilltu tengsl, meðal annars í bók sem hann skrifaði ásamt blaðamanninum Peter Jukes um morðið. Bókarefnið var einnig uppistaðan í afar áhugaverðu hlaðvarpi 2016 og 2017, um söguna ósögðu af morðinu á Daniel.

Viðleitni til að hræða þá sem fjölluðu um og rannsökuðu málið

Þáttur Murdoch-miðlanna kemur meðal annars fram í frásögn skýrslunnar af því hvernig Fillery tók höndum saman við Alex Marunchak á News of the World, til að hrella David Cook, lögreglumann sem um árabil hafði rannsakað morðið á Morgan.

Eiginkona Cooks, Jaquie Hayes, var fyrrum lögreglukona, sá um fræga sjónvarpsþætti um óupplýst glæpamál og þar tók hún mál Morgans upp. Fillery og Marunchak sendu hjónunum nafnlausar hótanir og létu elta þau svo þau óttuðust um líf sitt og fjölskyldu sinnar. Í skýrslunni segir að það hafi verið hagsmunir þeirra Fillerys og Rees að hindra rannsókn Cooks.

Alastair Morgan: ég þekki spillinguna af eigin raun

Í viðtali í dag sagði Alastair Morgan að hann vissi af eigin raun að spilling hamlaði morðrannsókinni. Af lagalegum ástæðum gæti hann ekki farið út í smáatriði en hann vissi þetta því hann hefði orðið vitni að spillingunni.

En hvers konar spilling telur nefndin að hafi verið innan lögreglunnar? Fyrir utan þetta að hindra rannsókn morðmálsins svarar nefndin því ekki nákvæmlega. Bendir á að lögreglumenn geti til dæmis hagnast á spillingu með ýmsum hætti.

Samkrull spilltra lögreglumanna og Murdoch-miðlanna er ekki ný saga í Bretlandi

Samkrull fjölmiðla og spilltra lögreglumanna er ekki ný saga í Bretlandi. Rupert Murdoch lokaði síðdegisblaðinu News of the World 2011, vegna ólöglegra starfshátta, sem nokkrir voru líka dæmdir í fangelsi fyrir.

Núverandi innanríkisráðherra og núverandi lögreglustjóri sæta gagnrýni

Í þinginu í dag hnykkti Priti Patel innanríkisráðherra á niðurstöðu nefndarinnar. Lögregluspilling gengi gegn öllu sem bresk löggæsla ætti að vera.

O‘Loan hefur gagnrýnt Patel fyrir að hafa frestað útgáfu skýrslunnar. Cressida Dick yfirmaður Höfuðborgarlögreglunnar hefur beðist afsökunar. En þar sem lögreglan sýndi nefndinni lítinn samstarfsvilja er spurning hvort afsökun er nóg.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir