Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Varð ástfanginn af sundlaugunum

Mynd: Menningin / RÚV

Varð ástfanginn af sundlaugunum

15.06.2021 - 13:03

Höfundar

„Mig hafði lengi dreymt um að ljósmynda sundlaugarnar og þegar kófið lagðist yfir birtist þetta einstaka tækifæri til að láta á það reyna,“ segir Michael R. Smith ljósmyndari sem opnaði nýverið sýninguna Speglun.

Sýningin stendur í anddyri Laugardalslaugar og hefur að geyma ljósmyndir af íslenskum sundlaugum sem Michael myndaði á ferðalagi sínu um landið.

„Almenningslaugarnar hér á Íslandi voru svo undurfurðulegt fyrirbæri í mínum huga því ég ólst upp við að einkasundlaugar væru mun algengari en almenningssundlaugar. Svo mér fannst stórskrítið að fara í almenningslaug þar til ég fór í laugarnar hér og áttaði mig á gildi þess að vera í samneyti við aðra, að stunda líkamsrækt í því samfélagi, synda í því samfélagi, spjalla í heitu pottunum eða bara hlusta á samræður. Svo ég varð fljótt ástfanginn af laugunum,“ segir hann. 

Samspil við vatnið

Alls myndaði hann 45 sundlaugar á tæpum 4 mánuðum og miðlaði hluta ferlisins á Instagramsíðu sinni. Serían í heild hefur að geyma 200 ljósmyndir. Á sýningunni í Laugardalslaug má sjá hluta afrakstursins, 22 myndir úr 17 laugum. 

Ljósmyndir Michaels einkennast af leik með liti og ljós, og óvænta vinkla á kunnugleg mynstur og þemu. „Ég tók eftir fögrum ljósbrigðunum á Íslandi, hvernig samspilið er við vatnið og svo mismunandi arkitektúr sundlauganna,“ segir hann. 

„Mig hafði lengi dreymt um að ljósmynda sundlaugarnar og þegar kófið lagðist yfir birtist þetta einstaka tækifæri til að láta á það reyna,“ segir Michael R. Smith ljósmyndari sem opnaði nýverið sýninguna Speglun.
 Mynd: Michael R. Smith - Speglun

Samhliða sýningunni opnar vefurinn www.speglun.is þar sem hægt er að festa sér verk Michaels og fræðast nánar um þau. Sýningin í Laugardalslaug stendur til 1. september. Verkin má einnig kynna sér á Instagram reikningi listamannsins.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Best við sund að vera ekki í símanum

Kvikmyndir

„Íslensk uppskrift að vellíðan“ – BBC um sundlaugarnar

Menningarefni

Liggur hamingjan í heita pottinum? 

Innlent

„Kvöl og pína“ að komast ekki í sund