Sýningin stendur í anddyri Laugardalslaugar og hefur að geyma ljósmyndir af íslenskum sundlaugum sem Michael myndaði á ferðalagi sínu um landið.
„Almenningslaugarnar hér á Íslandi voru svo undurfurðulegt fyrirbæri í mínum huga því ég ólst upp við að einkasundlaugar væru mun algengari en almenningssundlaugar. Svo mér fannst stórskrítið að fara í almenningslaug þar til ég fór í laugarnar hér og áttaði mig á gildi þess að vera í samneyti við aðra, að stunda líkamsrækt í því samfélagi, synda í því samfélagi, spjalla í heitu pottunum eða bara hlusta á samræður. Svo ég varð fljótt ástfanginn af laugunum,“ segir hann.
Samspil við vatnið
Alls myndaði hann 45 sundlaugar á tæpum 4 mánuðum og miðlaði hluta ferlisins á Instagramsíðu sinni. Serían í heild hefur að geyma 200 ljósmyndir. Á sýningunni í Laugardalslaug má sjá hluta afrakstursins, 22 myndir úr 17 laugum.
Ljósmyndir Michaels einkennast af leik með liti og ljós, og óvænta vinkla á kunnugleg mynstur og þemu. „Ég tók eftir fögrum ljósbrigðunum á Íslandi, hvernig samspilið er við vatnið og svo mismunandi arkitektúr sundlauganna,“ segir hann.