Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Valgeir Guðjóns, Tómas R. og Ragga Gísla á hringveginum

Mynd: Dagur Gunnarsson / Dagur Gunnarsson

Valgeir Guðjóns, Tómas R. og Ragga Gísla á hringveginum

15.06.2021 - 16:20

Höfundar

Það er skemmtileg blanda af þekktum og minna reyndum tónlistarmönnum í Undiröldu kvöldsins. Við byrjum á poppuðum jazzi frá Tómasi R. og Röggu Gísla og förum síðan yfir í slagara frá Hákoni sem er í Barcelona, Supersport, Láru Rúnars, Valgeiri Guðjónssyni, Tær, Red Riot ásamt David44 og loks Kef Lavík.

Tómas R. og Ragga Gísla - Ávarp undan sænginni

Smáskífan Ávarp undan sænginni er titilag tíu laga plötu Tómasar R. Einarssonar sem kemur út á LP, CD og stafrænt seinnipartinn í ágúst. Með Tómasi R. sem spilar á bassa í laginu er söngkonar Ragnhildur Gísladóttir auk Davíðs Þórs Jónssonar á hammond, Ómars Guðjónssonar á gítar og Magnúsar Trygvasonar Eliassen á trommur og slagverk.


Hákon - Barcelona

Tónlistarmaðurinn Hákon Aðalsteinsson hefur sent frá sér lagið Barcelona á flestar streymisveitur en áður hefur Hákon sent frá sér lögin Limbó og Skárra sem hafa heyrst hér á Rás 2.


Supersport - Hring eftir hring

Hring eftir hring er hugleiðing hljómsveitarinnar Supersport um línulegt tímaskyn, og hvernig það á kannski ekki alltaf við hið mannlega ástand, eins og segir í tilkynningu frá sveitinni. Lagið segja þeir líka bjartan og sólþurrkaðan sumarsmell, gítardrifið jaðar-popplag fyrir bjarta eða blauta sumardaga.


Lára Rúnars - Landamæri

Landamæri er annar söngullinn af komandi plötu Láru Rúnars sem er í vinnslu með upptökustjóranum Arnari Guðjónssyni, Arnar Gíslasyni trommara, Mugison, Jónasi Sig og fleirum og kemur að öllum líkindum út í haust ef allt fer að óskum.


Valgeir Guðjónsson - Þjóðvegur númer eitt

Valgeir Guðjónsson hefur sent frá sér lagið Þjóðvegur númer eitt sem varð til þegar honum hugkvæmdist titillin Þjóðvegur númer eitt en það er samkvæmt Valgeiri algeng leið hjá honum til að semja lög. Lög sem hafa orðið til með þessari aðferð hjá Valgeiri eru til dæmis Ástin vex á trjánum, Slá í gegn, Honey will you marry me, She Broke my Heart, Spilaðu lag fyrir mig og Popplag í G-dúr.


Tær - Geng

Hljómsveitin Tær hefur sent frá sér lagið Geng sem er einhvers konar blanda af indífolk, country, indírokki og kammerpoppi. Sveitin er skipuð þeim Arvid Ísleifi Scheving Jónssyni, Ásgeiri Kjartanssyni, Degi Bjarnasyni, Þórarni Þey Rúnarssyni, Sigurrós Jóhannesdóttir og hefur nýlega sent frá sér þröngskífuna Heiður.


Red Riot ft David 44 - One More Dance

Tónlistarkonurnar Hildur Kristín Stefánsdóttir og Ragna Kjartansdóttir sem eru kannski þekktastar sem Hildur og Cell 7 byrjuðu nýlega samstarf undir nafninu Red Riot. Þær sendu í síðustu viku frá sér slagarann One More Dance sem þær sömdu með Hugin en fengu söngvarann íslenska David44 til að syngja en hann er búsettur í danmörku.


Kef LAVÍK - Vice City Baby

Hljómsveitin Kef LAVÍK gaf líka út nýtt lag á föstudag. Lagið nefnist Vice City Baby og er þriðja smáskífan af væntanlegri plötu sem kemur út í ágúst hjá útgáfufyrirtækinu Öldu Records.