Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Værukærir stjórnendur hefðu þurft að gera betur

15.06.2021 - 21:28
Mynd: RÚV / RÚV Kastljós
Niðurstöður sem fram komu í skýrslu sem Landspítalinn vann í kjölfar hópsýkingarinnar sem þar kom upp á síðasta ári tiltóku húsakost, loftræstingu, þrengsli og undirmönnun meðal helstu ástæða fyrir því hve illa fór. Úttekt landlæknis bendir aftur á móti á kerfislæga þætti á borð við ófullkomna hólfaskiptingu, ófullnægjandi fræðslu og þjálfun starfsmanna, og eftirlit með fylgni þeirra við sóttvarnarreglur – atriði sem stjórnendur spítalans bera ábyrgð á.

Eftirfylgni ábótavant

Alma Möller landlæknir sagði að hún telji að stjórnendur hafi sinnt öllum framangreindum þáttum en það hefði þurft að gera enn betur. Hún telur mikil sóknarfæri felast í því fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi að auka eftirlit með að reglum sé fylgt, eins og það er orðað. „Það eru gefnar út verklagsreglur og það er boðið upp á námskeið en það vantar að fylgja því eftir að fólk fari á námskeiðin, kynni sér verklagsreglurnar og kunni þær. Við gerum athugasemdir við þetta.“

Viðbragðsáætlun ófullnægjandi

Alma nefndi ennfremur að rannsakendum Landlæknisembættisins hefði þótt að viðbragðsáætlun sú sem til staðar var hjá spítalanum hefði átt að vera betur úr garði gerð. „Það er liður í gerð viðbragðsáætlunar að gera ráð fyrir hinu versta,“ og benti á að þannig væri til að mynda viðbragðsáætlun Almannavarna gerð.

Alvarlegasta atvikið í íslenskri heilbrigðissögu

15 manns létust í kjölfar hópsýkingarinnar og Alma hefur talað um hana sem alvarlegasta atvik íslenskrar heilbrigðissögu. Hún sagði málið í heild skólabókardæmi og að svona atburðir eigi sér ekki stað nema brestur verði á mörgum stöðum í einu.