Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Slaufunarmenning og dómstólar götunnar

„Cancel culture“ eða slaufunarmenning hefur verið mikið til umræðu upp á síðkastið í tengslum við #metoo-bylgjuna. Áhrifin af slíkri slaufun geta verið víðtæk og áhrifarík. Kastljós fékk Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, baráttukonu gegn kynferðislegu ofbeldi, og Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði, til að spjalla um þetta eldfima málefni.

Dómstóll götunnar og réttur hans

Sumir hafa bent á að dómstólar götunnar megi ekki stýra örlögum fólks með þessum hætti. Aðrir benda á að fyrst réttarkerfið bregst þolendum ofbeldis ítrekað þá sé fullkomlega eðlilegt að dómstóll götunnar taki af skarið og kveði upp sína dóma. Fyrir bragðið hafa einstaklingar, oftar en ekki gerendur ofbeldisverka ýmiss konar, verið teknir úr umferð og nánast útskúfaðir.

Áhrifamáttur samfélagsmiðla

Þórdís Elva bendir á að almenningur hafi alltaf haft valdið til að velja og hafna en það kristallist núna með öðrum og áhrifaríkari hætti á samfélagsmiðlum. Hversu réttlætanlegur sá gerningur sé hverju sinni sé svo aftur á móti háð ýmsum breytum. Brotalamir þær sem sé að finna í dómskerfinu þegar kemur að meðferð meintra kynferðisabrota séu ekki til að hjálpa upp á sakirnar. Arnar Eggert bendir líka á að yngri kynslóðir hafi í ofanálag minna umburðarlyndi gagnvart ýmiss konar vafasamri hegðun. „En það eru mjög margar breytur í þessu og erfitt að segja af eða á. Er þetta réttlætanlegt eða ekki.“ 

Hve langt er fólk tilbúið að ganga?

Þórdís Elva varpaði enn fremur fram spurningunni um hvort rétt sé að einskorða umræðuna við listamenn, eins og helst virðist hafa gerst. Hún benti í framhaldinu á að sannað þyki að aðalhönnuður Android-stýrikerfisins hafi gerst sekur um að hafa beitt samstarfskonu kynferðisofbeldi. Væri þá í framhaldinu rétt að hætta alfarið að nota snjalltæki búin Andriod-stýrikerfinu, sem meðal annars knýr alla Samsung-snjallsíma veraldar?