Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýju samevrópsku bólusetningavottorðin koma í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: TourismReview
Græni passinn, sem er samevrópskt bólusetningarvottorð, ætti að verða öllum fullbólusettum hér á landi aðgengilegur í kvöld. Ísland tekur þátt í tilraunaverkefni með passann en að óbreyttu verður hann tekinn upp í öllum ríkjum Evrópusambandsins og EFTA 1. júlí. Verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu segir passann byggðan á QR-kóða og ekki sé hægt að falsa hann.

Fjórtán lönd til viðbótar við Ísland taka þátt í tilraunaverkefni Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna með bólusetningarvottorð með QR-kóða sem nefnt hefur verið græni passinn.

„Það sem er verið að gera er að vottorð sem núna er verið að skoða á landamærum, sem eru bólusetningarvottorð, neikvæð PCR-próf og vottorð um fyrri COVID-sýkingu, þau eru að fá á sig öll svona staðlaðan QR-kóða sem inniheldur upplýsingar og gerir það að verkum að það er mun þægilegra að staðfesta að þessi vottorð séu öll rétt og ekki fölsuð,“ segir Ingi Steinar Ingason, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu.

Ingi segir að stefnt sé að því að uppfæra heilbrigðisgáttina Heilsuveru í dag. Þangað á að vera hægt að sækja vottorðið. 

„Vonandi í kvöld, í síðasta lagi á morgun. Þá eru menn að fá þennan QR-kóða. Það breytist aðeins útlitið, kemur svona samevrópskt útlit á bólusetningarvottorðið eða skírteinið,“ segir Ingi.

Ingi segir að hálfur mánuður sé frá því byrjað var að taka á móti vottorðum með QR-kóða á landamærunum. Það flýti fyrir afgreiðslu að hafa vottorðin rafræn.

„Það er ekki hægt að falsa þessi vottorð. Það er alveg fullvissa fyrir því. Ef þú kemur með vottorð með QR-kóða getum við staðfest að þetta hafi raunverulega gefið út af réttum aðila og ekki hafi verið átt við vottorð, t.d. skipt um einstaklinga á því. Það er erfiðara þegar vottorðið er á pappír, að reyna að lesa í það,“ segir Ingi.

Stefnt er að því að nýju vottorðin verði tekin upp í öllu Evrópusambandinu 1. júlí. Ingi segir að fleiri lönd muni geta skannað QR-kóðana og fengið staðfestingu að vottorðið sé ósvikið. Þá sé gert ráð fyrir að sambærilegar lausnir sem eru í þróun í öðrum heimsálfum og ríkjum. Á endanum eigi kerfin að tengjast þannig að evrópski QR-kóðinn sem Íslendingar fá geti nýst alls staðar sem farið er.

Hann hvetur fólk til að kynna sér reglur á landamærum þess ríkis sem ferðast er til.

„Þó að fólk sé orðið bólusett og komið með vottorð upp á það, þá verður fólk að skoða reglur eru í gildi í löndum sem ferðast er til um þá sem eru bólusettir. „Það eru mjög mörg lönd ennþá sem sömu reglur um alla, alveg sama hvort menn eru bólusettir eða ekki. Það getur þýtt að fólk þurfi að fara í sóttkví og sýnatöku,“ segir Ingi.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV