Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mikill viðbúnaður í Genf vegna leiðtogafundar

15.06.2021 - 17:30
Mynd: AP / AP
Gríðarlegar öryggisráðstafanir eru í Genf í Sviss vegna fundar forseta Rússlands og Bandaríkjanna á morgun. Flugbann er yfir borginni og bakkar Genfarvatns hafa verið girtir af.

Fjögur þúsund hermenn, öryggissveitarmenn og lögreglumenn hafa verið kallaðir út til að gæta öryggis Joes Bidens Bandaríkjaforseta og Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, meðan á dvöl þeirra í borginni stendur. Níutíu og fimm prósent lögregluliðsins í Genf verða á vakt. Á herflugvöllum verða herþotur og þyrlur mannaðar. Lögreglubátar eru á ferð á Genfarvatni til að sjá til þess að engir óviðkomandi sigli þar um. Frakklandsmegin landamæranna er lögreglan einnig í viðbragðsstöðu ef eitthvað fer úrskeiðis. 

Fundarstaður forsetanna, höllin La Grange hefur verið girt af ásamt grasflötunum í kring. Ofan á girðingunni eru tveir kílómetrar af gaddavír. Hótelin í Genf þar sem forsetarnir gista hafa einnig verið girt af og öll umferð í grennd við þau verið stöðvuð. Íbúum Genfar hefur verið ráðlagt að taka sér frí úr vinnunni á morgun þar sem búast má við miklum umferðartöfum.

Þeir Pútín og Biden hittast í fyrsta sinn á morgun. Báðir hafa sagt að samskipti Rússlands og Bandaríkjanna séu með versta móti. Almennt er talið að lítill árangur verði af viðræðum þeirra. Leiðtogar ríkjanna hittust síðast árið 2018. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV