Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Könnun sýnir að spilling hefur aukist í faraldrinum

epa06149657 A European Union flag flies at half-mast in honour of the victims of the 17 August terrorist attack in Barcelona, Spain, in front of the seat of the European Commission in Brussels, Belgium, 18 August 2017. According to media reports, at least
 Mynd: EPA
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur aukið spillingu í ríkjum Evrópusambandsins. Um þriðjungur íbúa þess telur að spilling hafi aukist í faraldrinum.

Þetta er meðal niðurstaðna könnunar samtakanna Transparancy International sem auk annars leiðir í ljós að fólk hafi þurft að nýta sér persónuleg sambönd til að fá læknisaðstoð og að sumar ríkisstjórnir nýttu sér ástandið í eigin þágu.

Könnunin náði til 40 þúsunda í 27 ríkjum sambandsins og var gerð á tímabilinu frá október til desember á síðasta ári.

Um það bil 29 af hundraði þurftu að reiða sig á greiðasemi eða sambönd vina til að fá opinbera heilbrigðisþjónustu og sex prósent segjast hreinlega hafa þurft að greiða mútur.

Mútugreiðslur voru algengastar í Rúmeníu og Búlgaríu en Portúgalir og Tékkar þurftu helst að reiða sig á vinargreiða til að komast til læknis. Í skýrslu samtakanna kemur fram að heilbrigðisþjónusta hafi orðið gróðrarstía spillingar á tímum faraldursins.

Yfir 60% svarenda í Frakklandi, Póllandi og á Spáni álitu gagnsæi skorta í viðbrögðum stjórnvalda við faraldrinum.

Stjórnvöld í Ungverjalandi og Póllandi liggja undir sérstöku ámæli fyrir að nota faraldurinn sem átyllu til að draga úr lýðréttinum en samtökin kveða niðurstöðurnar mikið áhyggjuefni. Jafnframt var bent á að þýskir stjórnmálamenn hefðu skarað eld að eigin köku þegar koma að útvegun andlitsgríma.

Spilling geti stofnað bólusetningaráætlunum stjórnvalda í hættu, að mati Transparancy International, og ekki síður fyrirhugaðri uppbyggingu að faraldrinum yfirstöðnum.

Því hvetja samtökin ríki Evrópusambandsins til að hafa sanngirni og réttlæti að leiðarljósi, niðurstöðurnar ættu að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar að mati  Michiel van Hulten forvígismanns þeirra í Evrópu.