Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Karlar í forystu fyrir norðan en konur fyrir sunnan

15.06.2021 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fleiri konur skipa oddvitasæti fyrir þingkosningarnar í haust en fyrir fjórum árum. Körlum er frekar treyst til að leiða lista á norðanverðu landinu en konum sunnan heiða.

Stjórnmálaflokkarnir hafa flestir kynnt framboðslista sína fyrir alþingiskosningarnar í september og nú þegar er ljóst að fleiri konur raða sér í oddvitasæti en í kosningunum 2017.

Þórdís Kolbrún gæti jafnað hlutföllin

Hjá Framsóknarflokknum eru fjórir karlar og tvær konur í efstu sætum listans. Prófkjöri er að vísu ekki lokið í Suðurkjördæmi en næsta öruggt má telja að formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson leiði listann, enda sá eini sem sækist eftir fyrsta sætinu.

Það gæti farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn tefli fram jafnmörgum konum og körlum í efstu sætunum. Það skýrist þó ekki fyrr en um helgina þegar prófkjöri í Norðvesturkjördæmi lýkur. Haraldur Benediktsson sækist eftir því að leiða listann áfram en varaformaður flokksins og ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttir gerir það einnig. Sigri sú síðarnefnda verða kynjahlutföll oddvitanna jöfn.

Hjá Vinstri grænum eru kynjahlutföllin jöfn. Þrír ráðherrar leiða lista en í hinum þremur kjördæmunum eru það nýliðar sem skipa oddvitasætin.

Konur í meirihluta hjá Samfylkingu

Viðreisn teflir einnig fram jafn mörgum konum og körlum, konurnar leiða á suðvesturhorninu en körlum er teflt fram á landsbyggðinni.

Hjá Samfylkingunni eru konur í meirihluta, fjórar konur og tveir karlar. Helmingur oddvita eru sitjandi þingmenn en aðrir eru nýliðar, þótt Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi áður setið á þingi fyrir flokkinn.

Píratar tefla fram jafnmörgum konum og körlum. Sitjandi þingmenn freista þess að verja þingsætin á suðvesturhorninu en nýliðar sækja fram á landsbyggðinni.

Þegar fleiri en í kosningunum 2017

Það liggur því fyrir að 17 konur leiða lista í haust og 18 karlar. Átjánda konan gæti bæst við ef Þórdís Kolbrún hefur betur um helgina. Fyrir kosningar 2017 voru hlutföllin hjá þessum flokkum 14 konur og 22 karlar.

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafa ekki stillt upp listum en báðir þessir flokkar tefldu fram fimm körlum og einni konu í síðustu kosningum. Jafnvel þó svo verði aftur í ár er ljóst að konum í oddvitasæti fjölgar á milli kosninga. Sósíalistaflokkurinn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hafa einnig boðað framboð en ekki stillt upp listum.

Norðvesturkjördæmi gæti orðið karlavígið

Suðvesturkjördæmi er eina kjördæmið þar sem kynjahlutföll oddvita eru jöfn. Konur eru í meirihluta í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur en flokkarnir virðast telja það líklegra til sigurs að tefla fram körlum á norðanverðu landinu. Fimm karlar leiða í Norðausturkjördæmi, og Norðvesturkjördæmi gæti orðið eina kjördæmið þar sem eingöngu karlar leiða lista.

Magnús Geir Eyjólfsson