Tæplega eins stigs frost var á Akureyri í nótt en þar hefur ekki orðið kaldara svo seint í júní frá því árið 1978 - eða í 43 ár.
Um þetta skrifar Einar Sveinbjönssonar, veðurfræðingur, á Facebook.
Og það fraus víða í nótt. Á láglendi var kaldast á Reykjum í Fnjóskadal eða fimm stiga frost og á Végeirsstöðum í sömu sveit var frostið 4,9 stig. Þetta segir Einar með mesta kulda á þessum tíma í áraraðir. „En samanburður vissulega erfiður þar sem mest er af köldum dögum í blábyrjun mánaðarins.“
Þessu valdi óvenjukaldur og þykkur loftmassi yfir landinu og Einar líkir þessu við frægt norðan áhlaup sem gerði sautjánda júní árið 1959.