Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kærunefnd snýr við ákvörðun Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun
 Mynd: ruv
Kærunefnd útlendingamála hefur snúið við þeirri ákvörðun Útlendingastofnunar að neita hælisleitendum um húsaskjól og fæðispeninga, neiti þeir að fara í PCR-próf eftir að ákveðið hefur verið að vísa þeim úr landi. Þetta segir Magnús Davíð Norðdahl lögmaður en umbjóðandi hans er einn þeirra sem málið tekur til.

„Á síðustu misserum hefur Útlendingastofnun viðhaft þá háttsemi að svipta ákveðna hælisleitendur húsnæði og fæði, og senda þannig á götuna. Þetta hefur verið gert í þeim tilfellum þegar umræddir hælisleitendur hafa reynt að koma í veg fyrir eigin brottvísun með því að neita að gangast undir COVID-próf í aðdraganda brottvísunar,“ útskýrir Magnús. „Umrætt COVID-próf, í þeim tilvikum sem um ræðir, tengist þá bara þeirri brottvísun sem um ræðir og er nauðsynlegur undanfari þess að brottvísun geti átt sér stað.“

Fólk að flýja lífshættulegar aðstæður

Hann bendir á að hælisleitendur eins og hér um ræðir séu að flýja lífshættulegar aðstæður og séu þar af leiðandi óviljugir til þess að hjálpa við eigin brottvísun. „Ég hef ekki enn hitt þann hælisleitanda sem reynir að hjálpa til við eigin brottvísun,“ bætir Magnús við. 

Prófið aðeins liður í brottvísun

Hann bendir á að það sé því mikilvægt að hafa í huga að umrædd COVID-próf tengist á engan hátt lýðheilsusjónarmiðum eða því að einhver hafi verið útsettur fyrir smiti heldur voru prófin eingöngu liður í því að geta framkvæmt þá brottvísun sem um ræðir á grundvelli krafna sem settar eru fram af viðtökuríki.

Ekki tekið tillit til sjónarmiða hælisleitenda

„Við sögðum Útlendingastofnun, og komum þeim sjónarmiðum mjög skýrt á framfæri, að við teldum háttsemi af þessu tagi ólögmæta af hálfu stofnunarinnar og þeim væri ekki stætt á því að haga sér með þessum hætti,“ bætir Magnús við. Útlendingastofnun tók ekki tillit til þessara sjónarmiða og neitaði í kjölfarið hælisleitendum um húsaskjól og fæðispeninga. Segir Magnús það hafa verið gert í allmörgum tilvikum.

„Áfellisdómur yfir Útlendingastofnun“

Magnús kærði í framhaldinu framferði Útlendingastofnunar, fyrir hönd eins umbjóðanda síns. „Kærunefnd útlendingamála hefur nú fallist á sjónarmið okkar og fellt ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Því ber auðvitað að fagna,“ segir Magnús. Umbjóðandi Magnúsar og aðrir í sömu stöðu - alls á annan tug aðila, að mati Magnúsar -  eiga því núna rétt á því að fá þessa þjónustu, húsnæði og fæði, frá Útlendingastofnun. „En þetta er auðvitað líka áfellisdómur yfir Útlendingastofnun sem þarna gekk fram, að okkar mati, með ólögmætum og ómannúðlegum hætti.“ 

Endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi

Magnús segir að þessi ákvörðun Kærunefndarinnar verði ekki skilin á annan veg en svo að þessir aðilar eigi rétt á umræddri þjónustu og geti leitað til Útlendingastofnunar eftir henni. „Útlendingastofnun getur ekki í framtíðinni tekið upp á því að svipta fólk húsnæði og fæði. Þetta er endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi hjá Kærunefnd útlendingamála.“