Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Harmar örlög fjarskiptafrumvarps

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Forstjóri Vodafone segir óskiljanlegt að fjarskiptafrumvarp samgönguráðherra hafi ekki verið samþykkt á nýliðnu þingi. Afleiðingarnar séu þær að uppbygging fjarskiptainnviða tefjast sem hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfni Íslands.

All mörg stjórnarfrumvörp urðu úti þegar þingflokkarnir settust niður skömmu fyrir þinglok og reyndu að ná samkomulagi um lyktir þingmála. Eitt þeirra var fjarskiptafrumvarp samgönguráðherra sem hafði einna helst vakið athygli fyrir svokallað Huawei-ákvæði, en það fól í sér að ráðherra gat með reglugerð bannað búnað frá framleiðendum utan bandalagsríkja Íslands.

Málið var engu að síður tiltölulega óumdeilt en féll þrátt fyrir það út á lokametrum þingsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu var það þingflokkur Vinstri grænna sem kom í veg fyrir að málið næði í gegn að ganga. Það var ekki vegna efnislegrar andstöðu heldur varð fjarskiptafrumvarpið, sem og önnur ráðherrafrumvörp, bitbein á milli stjórnarflokkanna ekki síst eftir að ljóst var orðið að frumvarp um hálendisþjóðgarð yrði ekki samþykkt.

Óskiljanlegt að frumvarpið hafi verið kæft

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, er afar óánægður með örlög frumvarpsins enda því ætlað að taka á uppbyggingu fjarskiptakerfisins til framtíðar og hafi mikil áhrif á samkeppnishæfni landsins. „Að frumvarpið skildi ekki hafa verið samþykkt þýðir að við færumst aftar í samkeppnishæfni vegna þess að við höfum ekki tækifæri til að byggja upp. Það er ekki hægt að úthluta tíðniheimildum varanlega, það er ekki hægt að gera neitt fyrr en þetta frumvarp fer í gegn,“ segir Heiðar.

Heiðar segist ekki skilja hvers vegna ekki var hægt að afgreiða frumvarpið. Það sé byggt á evrópskri löggjöf sem var mjög til bóta og hafði verið í meðförum þingsins um all nokkurt skeið. Nú ríði á að frumvarpið verði samþykkt á haustþingi.  „Það er nauðsynlegt því við erum alltaf að bíða eftir því að fá varanlegar tíðniheimildir þannig að við getum byggt upp og farið í fjárfestingar til langs tíma og ef þetta klárast ekki í haust þá verða tíðniheimildir ekki boðnar út væntanlega fyrr en í lok næsta árs og þá er ansi langt um liðið. Það stóð til að fara af stað með alvöru uppbyggingu 5G 2020 út um allt land en núna er ljóst að það verður nánast ekkert 2021 og ólíklegt að það verði mikið 2022.“

Þau svör fengust frá Símanum og Nova að frestunin hefði ekki teljandi áhrif á uppbyggingu 5G-kerfa hjá þeim. Í svari Nova segir hins vegar að ný fjarskiptalög hafi eytt óvissu um endanlegar leikreglur um úthlutun tíðna til langs tíma. Þar sem tíðnileyfin komi til endurúthlutunar í desember sé enn tími fyrir þingið að afgreiða frumvarpið.