Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Harðari takmarkanir á 17. júní nú en í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samkomutakmarkanir eru strangari á þjóðhátíðardaginn nú en í fyrra. Þá máttu 500 koma saman en 300 nú. Reykjavíkurborg ætlar að bjóða upp á viðburði á fimmtudag, þjóðhátíðardaginn, sem verða ekki auglýstir á ákveðnum tíma og sumir ekki heldur á ákveðnum stöðum. Með þessu á að koma í veg fyrir hópamyndun, segir verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg. Fólk er hvatt til að klæða sig vel, spáð er sex stiga hita í höfuðborginni á hádegi og nokkrum blæstri.

„Í fyrra máttu 500 manns koma saman en núna eru það aðeins 300. Þannig að við ætlum okkur að vera með marga litla viðburði víðs vegar um miðborgina. Ekkert tímasett og hvetja fólk til þess að vera heima, halda sína hátíð heima. Þetta verður bara svona víðs vegar um borgina. Svo ætlum við að vera með matarvagna á Klambratúni og sirkuslistafólk og líka í Hljómskálagarðinum og sirkuslistafólk. Þannig að fólk getur bara rölt um, ef það ætlar að skreppa í bæinn, rölt um og látið koma sér á óvart. Við viljum ekki hópamyndanir. Þannig að fólk getur bara rölt um, kannski séð lúðrasveit labba fram hjá sér eða sirkuslistafólk. Þetta verða svona óvæntar uppákomur víðs vegar um miðborgina. Matarvagnar verða á þessum tveimur stöðum frá eitt til sex,“ segir Aðalheiður Santos Sveinsdóttir, verkefnastjóri viðburða á menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar. Rætt var við hana í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Þá hafa hverfaráðin einnig skipulagt viðburði, til að mynda í Grafarvogi, Breiðholti og Skerjafirði. Nálgast má dagskrána á vefnum 17juni.is

Í Kópavogi verða fimm hverfishátíðir, í og við menningarhúsin í Kópavogi, við Fífuna, í Fagralundi, við Salalaug og Kórinn. Tekið er fram á vef bæjarins að grímuskylda verði á hátíðarsvæðinu og allar hendur verði sprittaðar sem fari í leiktækin sem þar eru í boði. 

Á Seltjarnarnesi verða ekki hefðbundin 17. júní-hátíðarhöld en boðið er upp á ratleik, ísbíllinn verður á ferðinni, hátíðaropnun í sundlauginni og fleira.

Í Garðabæ verður boðið upp á fánahönnun, grímugerð og lúðraþyt. Þá verður söngur, danspartí og bátafjör, sund, gamlir leikir og hönnun.

Veðurspáin er fremur kuldaleg í höfuðborginni því aðeins er spáð sex stiga hita á hádegi á þjóðhátíðardaginn. Þá er gert ráð fyrir nokkrum blæstri eða sex metrum á sekúndu. 

Aðalheiður hvetur fólk til að klæða sig upp en þó í samræmi við veður. „Kannski þurfum við að fara í ullarföt,“ segir Aðalheiður.