Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hafnar ásökunum um uppruna veirunnar í tilraunastofu

epa08168539 A fully protected nurse takes a phone call beside her ambulance in Wuhan, Hubei province, China, 26 January 2020 (issued 27 January 2020). According to media reports, Wuhan is widely considered as the origin point of the coronavirus outbreak. The virus outbreak has so far killed at least 56 people with around 2,000 infected, mostly in China.  EPA-EFE/YUAN ZHENG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Doktor Shi Zhengli, æðsti yfirmaður tilraunastofunnar í kínversku borginni Wuhan sem legið hefur undir grun um að hafa misst kórónuveiruna úr böndum og út í umhverfið, hafnar öllum ásökunum um slíkt.

Shi tjáði sig um málið við New York Times og segist ekki skilja hvernig veröldin gæti hellt úr skálum reiði sinnar yfir blásaklausa vísindamenn sem ekkert hefðu til saka unnið.

Hún kvað jafnframt útilokað að leggja fram sönnunargögn í málinu enda væru þau ekki til. 

Hún er sérfræðingur í kórónuveirum í leðurblökum og því halda vísindamenn því fram að tilraunastofan hafi verið að kanna áhrif slíkra veira á hýsla með því að magna af þeim áhrifin.

Shi hafnar því og segist aldrei hafa stundað slíkt heldur hafi hún og samstarfsfólk hennar unnið að því að greina hvernig á því stæði að veiran gæti stokkið milli tegunda. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti fyrirskipaði leyniþjónustudeildum í síðasta mánuði að rannsaka uppruna faraldursins, þar á meðal hvort rekja megi hann til rannsóknarstofu í veirufræði sem Shi stjórnar. Sögusagnir þess efnis fóru snemma á kreik en fljótlega var þeim hafnað sem samsæriskenningum. 

Nýverið tók kenningunum að vaxa fiskur um hrygg að nýju, einkum vegna þess að í ljós hefur komið að þrír starfsmenn tilraunastofunnar veiktust eftir heimsókn í leðurblökuhelli í Yunnan-héraði.