Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Grunur um stórfelld skattalagabrot tengd Airbnb

Mynd með færslu
 Mynd: Natalie Ortiz - ouishare
Grunur er uppi um stórfelld skattalagabrot Íslendinga samkvæmt gögnum frá Airbnb sem skattrannsóknarstjóri hefur aflað. Brotin eru að mati sett skattrannsóknarstjóra það alvarleg að sektir eða fangelsisdómur gætu legið við þeim.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og að þær fjárhæðir sem ekki hafi verið gefnar upp á skattframtölum geti numið tugum milljóna króna.

Skattrannsóknarstjóri býr yfir upplýsingum um 25,1 milljarðs greiðslur til Íslendinga frá Airbnb á Írlandi vegna áranna 2015 til 2018.

Rannsókn miðar vel og hefur blaðið eftir Theodóru Emilsdóttur, settum skattrannsóknarstjóra, að sum málin séu það umfangsmikil og alvarleg að þau gætu endað fyrir dómstólum.

Ekki sé ljóst hve mörg mál verði tekin til rannsóknar en þau verði nokkur að því er fram kemur í máli Theodóru. Auk endurákvörðunar skattgreiðslna gæti þurft að bæta sektum við í einhverjum tilfellum og jafnvel fangelsisrefsingu.