Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Græða merki í fiska til að fylgjast með ferðum þeirra

15.06.2021 - 15:40
Hlustunardufl og merki nýtast við að fylgjast með ferðalögum fiska á Vestfjörðum og hvernig loftslagsbreytingar og sjókvíaeldi hafa áhrif á háttalag þeirra.

Rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum undirbýr nú merkingar fiska í Dýrafirði og Seyðisfirði til þess að fylgjast með ferðalögum þeirra í sjónum. Hver og einn lifandi fiskur er merktur og svo skilað aftur í vatnið.

„Við erum að nota þetta til að nálgast upplýsingar þá fyrst og fremst hvernig umhverfisbreytingar í sjó hafa áhrif á þessar ferðir, það er að segja hvort fiskarnir séu að sækja í ákveðið hitastig, seltustig og svo framvegis. En líka er þetta góð aðferð til að meta áhrif af raski eða öðrum þáttum, eins og til dæmis sjókvíunum eða ágengum eða nýjum tegundum,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður rannsóknasetursins.

Þetta er þriðja árið þar sem ferðir fiska eru rannsakaðar með þessum hætti. Hingað til hafa þorskseiði aðallega verið merkt, en nú á að bæta verulega í tegundafjölbreytni. Fiska eins og þorsk og ufsa er hægt að merkja innan í kviðarholinu, en flatfiskar eins og flundran fá utanáliggjandi merki. Merkin tala svo við hlustunardufl sem eru sett í sjóinn og með upplýsingum úr þeim er hægt að greina ferðir fiskanna.

Anya Nickel er ein þriggja doktorsnema sem taka þátt í verkefninu. 

„Þetta er stórt verkefni sem við vinnum að hérna. Það er spennandi að læra svona mikið um fiskana og fá tækifæri til þess að vinna í þessu umhverfi.“