Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eins metra regla tekur gildi

15.06.2021 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Nú mega 300 manns koma saman í einu. Eins metra fjarlægðarregla tekur við af tveggja metra reglu. Nýjar reglur um samkomutakmarkanir taka gildi í dag, 15. júní. Þetta kemur fram á covid.is.

 

Veitingastaðir mega taka á móti gestum til miðnættis. Áfram þarf að skrá nafn, kennitölu og símanúmer gesta. Þeir þurfa að fara af veitingastaðnum fyrir klukkan eitt eftir miðnætti.

Ef ekki er hægt að tryggja eins metra reglu verða gestir að vera með grímu. Á leiksýningum, bíósýningum, tónleikum og öðrum menningarviðburðum mega vera 300 gestir. Allt að 150 manns mega vera á sviði í einu.

Allar íþróttir án fjöldatakmarkana

Nú má stunda allar íþróttir, úti og inni, án fjöldatakmarkana. Á íþróttakeppnum mega vera allt að 300 áhorfendur og þarf að skrá nafn, kennitölu og símanúmer þeirra.

Sundstaðir eru nú opnir og líka líkamsræktarstöðvar. Þar mega ekki vera fleiri en 300 í hverju rými. Tryggja skal eins metra reglu.

Fólk sem hefur fengið COVID-19 þarf ekki að bera grímu. Ekki heldur fólk sem getur ekki verið með grímu af heilsufarsástæðum.

Börn fædd 2005 og síðar þurfa ekki grímu

Hámarksfjöldi og eins metra regla eiga ekki um um börn sem eru fædd 2015 eða síðar. Börn sem eru fædd 2005 eða síðar þurfa ekki að hafa grímu.

Reglugerðin gildir til 29. júní.

 

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur