
Breyting á ferðaþjónustunni til framtíðar
Framkvæmdir fara fljótlega í gang
Skóflustungan í dag markar upphaf tveggja ára framkvæmdatíma á flugvellinum á Akureyri. Framkvæmdirnar eru hluti aðgerða sem stjórnvöld boðuðu til að verjast samdrætti vegna faraldursins.
Búið er að hanna viðbyggingu og breytingar á núverandi flugstöð en útboð á framkvæmdinni fer fram 28. júní, segir framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla Isavia, Sigrún Björk Jakobsdóttir. Í lok þessarar viku fer síðan af stað verðfyrirspurn varðandi neðra burðarlag á flughlaðinu.
„Dagurinn markar þessi tímamót að við erum að hefjast handa fyrir alvöru og sjáum fram á að þessum framkvæmdum muni ljúka vorið 2023,“ segir Sigrún Björk.
Betur búin til að taka á móti fleiri farþegum
Akureyringar hafa lengi kallað eftir að aðstaða á flugvellinum verði bætt til að hægt sé að líta í auknum mæli til millilandaflugs. Eins og staðan er nú er flugstöðin illa í stakk búin til að sinna innanlandsflugi og millilandaflugi samtímis. Það breytist með framkvæmdunum sem nú fara af stað. „Þetta breytir miklu, öll aðstaða hérna til að taka á móti farþegum á Akureyrarflugvelli breytist og verður auðveldara að taka á móti flugvélum,“ segir Sigrún Björk.
„Þetta breytir öllu“
Áherslur ríkisstjórnarinnar hafa verið að opna aðra gátt inn í landið en í gegnum Keflavík með það fyrir augum að dreifa ferðamönnum betur um landið.
„Þetta breytir eiginlega öllu, þetta gerir okkur kleift að taka hér á móti miklu meira flugi en hefur verið hægt með góðu móti hingað til og þetta verður algjör grundvallarbreyting fyrir alla möguleika sem við höfum til framtíðar til að efla hérna ferðaþjónustu,“ segir verkefnastjóri markaðsstofu Norðurlands, Hjalti Páll Þórarinsson.
Ferðaþjónustan á Norðurlandi er í áætlunum sínum undir aukið streymi ferðamanna búin og væntir þess að álagið verði ekki eins staðbundið við Suðurland og verið hefur. „Hins vegar skulum við ekki gleyma því að þegar við segjum að við séum í samkeppni þá erum við ekki endilega að taka af öðrum áfangastöðum á Íslandi heldur erum við að stækka kökuna og búa til fleiri möguleika fyrir alla,“ segir Hjalti.