Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biden sagði leynigest „enga ógn við sendiherra Íslands“

15.06.2021 - 08:12
epa07872759 (FILE) - Then US Vice President Joe Biden (R) tours a Hutong alley with his son Hunter Biden (L) in Beijing, China, 05 December 2013 (reissued 27 September 2019). An impeachment inquiry against US President Donald J. Trump has been initiated following a whistleblower complaint over his dealings with Ukraine. The whistleblower alleges that Trump had demanded Ukrainian investigations into US Presidential candidate Joe Biden and his son Hunter Biden's business involvement in Ukraine.  EPA-EFE/ANDY WONG / POOL
Hunter Biden (t.v) ásamt föður sínum, Joe Biden Mynd: EPA
Hunter Biden, sonur Bandaríkjaforseta, brást hinn versti við þegar umsjónarmaður skrifstofubyggingarinnar House of Sweden í Washington, gerði athugasemdir við að hann væri að smygla gestum inn í húsið og brjóta þar með öryggisreglur. Sendiráð Íslands var með skrifstofur í byggingunni. Einn gestanna var svört, heimilislaus kona sem Biden sagði að væri engin ógn „við íslenska sendiherrann“ og sakaði um leið starfsfólk byggingarinnar um kynþáttamismunun.

Ráðgjafafyrirtæki Hunters Bidens var með skrifstofur í House of Sweden árið 2017. Sænskir fjölmiðlar fjölluðu fyrr á þessu ári um hvernig Biden hefði ítrekað brotið öryggisreglur hússins og síðan flutt út.

Stundin greindi frá þessum fréttaflutningi í febrúar. Þar kom fram að þar sem sendiráð væru með skrifstofur í húsinu væru öryggisreglur strangar og öryggisverðir þyrftu að fá upplýsingar um alla gesti sem þangað kæmu.

Breska blaðið Daily Mail og hið bandaríska New York Post héldu í  morgun áfram að fjalla um tölvupóstsamskipti umsjónarmanns hússins og Bidens. Umsjónarmaðurinn biður þá sem eru með skrifstofu í byggingunni að vera ekki að lauma inn gestum í gegnum hliðardyr þegar búið sé að loka byggingunni eða láta óviðkomandi hafa aðgang.

Biden brást frekar reiður við þessum tölvupósti, sagðist engar reglur hafa brotið enda væri það erfitt. Eftirlitsmyndavélar væru út um allt og hann hefði ekkert að fela. 

Biden sagði einn gesta sinna vera Lunden Roberts sem væri lærimeistari bæði dóttur hans og dóttur Baracks Obama í körfubolta. 

Biden og Roberts eignuðust saman dóttur árið 2018 en hann gekkst ekki við henni fyrr en Roberts lét hann gangast undir faðernispróf.

Hinn gesturinn sem Biden nefnir sérstaklega í svari sínu var svört kona sem hann segir í tölvupóstinum hafa verið vinkonu sína í 17 ár. „Hún hefur átt erfitt líf en er ein heiðarlegasta og umhyggjusamasta manneskja sem ég þekki.“  

Biden segir hana hafi búið á götunni í einhvern tíma og hann hafi alltaf reynt að aðstoða hana, meðal annars með því að láta hana hafa vinnu á sérstökum vinnutíma til að hún geti hallað höfði á öruggum stað. „Ég get fullvissað þig um að íslenska sendiherranum stafar engin ógn af henni,“ skrifar Hunter Biden en í umfjöllun Dagens Nyheter kemur fram að hann hafi verið nágranni íslenska sendiráðsins.

Biden bætir því við að konan hafi gist heima hjá foreldrum hans og heimsótt Hvíta húsið með honum.

Utanríkisráðuneytið sagði í svari til Stundarinnar á sínum tíma að starfsfólk sendiráðsins hefði lítið sem ekkert orðið vart við Hunter Biden. Hann hefði aldrei komið inn á borð sendiskrifstofunnar. „Starfsfólkið varð lítið sem ekkert vart við hann enda var viðdvöl hans í húsinu harla stutt.“