Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Viðbúið að einhver afföll verði af lambfé í svona kulda

14.06.2021 - 20:49
Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Bóndi í Mývatnssveit segir alltaf viðbúið að afföll verði af lambfé þegar kólnar jafn snögglega og í gær. Það versta virðist þó gengið yfir og ekki er óttast að hretið hafi haft mikil áhrif á fuglalíf.

Það var fátt sem benti til þess á Norður- og Austurlandi í gær að komið væri fram undir miðjan júní, snjókoma og leiðindaveður. Veðrið var heldur skárra í morgun, en þó áfram éljagangur og kalt.

„Ég hefði átt að klæða mig betur“

Bandarískum ferðamönnum frá Utah, sem voru við Goðafoss í morgun, leist ekkert á blikuna. Enda hálfgerð hitabylgja á þeirra heimaslóðum, um 38 stiga hiti, og hitaviðvaranir bárust í síma þeirra. „Ég hefði átt að klæða mig betur. Það er mjög kalt,“ segir Cami Spendlove.

Alltaf einhver afföll þegar kólnar svo snögglega

Sauðburði er víðast hvar lokið eða rétt að ljúka og lambfé að mestu komið á beit. „Það er ein eftir, en mestallt er komið út á tún og sumar eru farnar í heiðina,“ segir Gunnar Brynjarsson, bóndi í Baldursheimi í Mývatnssveit. Hann segir það alltaf áhyggjuefni þegar kólnar svo snögglega og fé er komið á fjall. En kindurnar finni sér skjól í úthaganum. „En það verða alltaf einhver afföll.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Kuldaleg heiðlóa í Mývatnssveit

Viðkvæmur tími fyrir fuglana

Og fuglunum er kalt í hretinu, en varp er nú í fullum gangi. Gæsin er einna fyrst til að unga út og gæsarungarnir kuldalegir í snjónum. „En þetta varð ekki nógu langt held ég til þess að hafa stór áhrif á fuglastofnana núna,“ segir Daði Lange Friðriksson, umhverfisfulltrúi Skútustaðahrepps. „En auðvitað eru ungarnir að skríða út, fuglinn liggur á eggjum núna. Þetta er mjög viðkvæmt ástand, en ég vona að þetta sleppi.“

Segir þetta hret koma óvenju seint

Þó það sé alls ekki óalgengt að fá hret að vori eða í byrjun sumars, segir Daði þetta hret koma óvenju seint. „Þetta er svona í það seinasta sem ég man eftir alla vega, en ég man þó eftir snjó viku af júní og það slapp alveg til. Það stóð reyndar aðeins lengur en þetta. Þannig að við erum alveg vanir að fá snjó. En það er alveg að koma 17. júní og það er nú venjulega pæluvargur og mikill hiti þá, en maður sér það kannski ekki fyrir sér núna miðað við hvernig ástandið er.“