Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tilslökunum seinkað í Bretlandi

14.06.2021 - 16:05
epa09240739 A man enters a Covid-19 vaccination centre in London, Britain, 01 June 2021. The UK government is pushing ahead with its vaccination program in its fight against the Delta variant that continues to spread across England. The UK government plans to lift lockdown restrictions completely 21 June.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjölmiðlar í Bretlandi fullyrða að stjórnvöld ætli að fresta um einn mánuð að afnema nánast allar sóttvarnareglur á Englandi vegna faraldursins. Til stóð að stíga það skref að viku liðinni, 21. júní. Veirusmitum hefur fjölgað töluvert að undanförnu, einkum hinu svonefnda delta-afbrigði.

Boris Johnson forsætisráðherra ávarpar þjóðina klukkan fimm í dag að íslenskum tíma og greinir frá næstu skrefum til að létta á sóttvörnum. Að sögn fjölmiðla hafa hæst settu ráðherrar bresku stjórnarinnar fallist á að fresta afnámi sóttvarnareglna þann 21. júní. Breska ríkisútvarpið BBC hefur heimildir fyrir því að frestunin vari í einn mánuð. Boris Johnson gaf í skyn í síðustu viku að sú kynni að verða raunin. 

Stjórnvöld í Skotlandi, Norður-Írlandi og Wales ákveða sjálf sóttvarnir í sínum landshlutum. Afnema átti flestar ráðstafanir í Skotlandi 28. júní, en búist er við að því verði frestað. 

Ástæða þessa er sú að kórónuveirusmitum hefur fjölgað töluvert í Bretlandi að undanförnu. Smit á hverjum sólarhring eru álíka mörg og í febrúar. Þau hafa verið yfir sjö þúsund síðustu sex daga, - núna síðast 7.742.

Í níu af hverjum tíu tilvikum er það svonefnt delta-afbrigði veirunnar sem dreifist manna á meðal um þessar mundir. Þess varð fyrst vart á Indlandi í haust. Rannsókn bresku lýðheilsustofnunarinnar á afbrigðinu leiddi í ljós að það er sextíu prósentum smitnæmara en alfa-afbrigðið svonefnda sem fyrst greindist í Bretlandi.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV