Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kína verður ekki hunsað

epa09270374 NATO heads of states and governments pose for the family picture during the NATO summit at the Alliance's headquarters, in Brussels, Belgium, 14 June 2021. The 30-nation alliance hopes to reaffirm its unity and discuss increasingly tense relations with China and Russia, as the organization pulls its troops out after 18 years in Afghanistan.  EPA-EFE/Horst Wagner / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EFE POOL
Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóri NATO, segir að bandalagið þurfi að takast saman á við áhrif af uppgangi Kína en leggur áherslu á að Kína sé ekki andstæðingur bandalagsins. Leiðtogar 30 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins ráða nú ráðum sínum í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er á leiðtogafundinum ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hann segir að bandalagið standi nú á ákveðnum tímamótum.

Fundurinn er sá fyrsti sem Joe Biden, nýr forseti Bandaríkjanna tekur þátt í og Guðlaugur segir að hann hafi sent skýr skilaboð um að samstarf og samtal milli ríkjanna sem eru í Atlantshafsbandalaginu og líka að þær verið að standa saman um gildin sem liggja því til  grundvallar. 

 Atlantshafsbandalagið stendur fyrir ákveðin gildi sem okkur finnst vera sjálfsögð. Þá er ég að vísa til mannréttinda,  lýðræðis og réttarríkisins. Og við þekkjum það að þau gildi eiga undir högg að sækja í heiminum. Þess vegna er svo mikilvægt að við stöndum þétt saman þau ríki sem eru í  Atlantshafsbandalaginu og önnur þau ríki sem eru með sömu gildi. Og ef við gerum það ekki þá er hætta á því að þessi gildi þurfi að víkja og það væri hræðileg staða. 

Kína er ofarlega á baugi á þessum leiðtogafundi, enda sé það ríki sem verði að taka tillit til á alþjóðavettvangi segir Guðlaugur. Það verði ekki farið í afvopnun í heiminum án þess að kínverjar komi að því borði. Þá sé mikilvægt að starfa með þeim þegar kemur að loftslagsbreytingum og öðru slíku.

Í Brussel er rætt um framtíðarsýn NATO fyrir 2030. Þar segir Guðlaugur að Ísland hafi lagt áherslu á jafnréttis- og loftslagsmál. 

Sömuleiðis þegar kemur að varnarvægi bandalagsins þá líti menn til þess svæðis sem við erum á, það er í Norður-Atlantshafinu.