Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íbúar máttu ekki njósna um nágranna og hund hans

14.06.2021 - 08:34
Mynd með færslu
Hundurinn á myndinni tengist efni fréttarinnar ekki beint Mynd: Nicole De Khors - burst.shopify.com/Creative commo
Persónuvernd hefur gert tveimur íbúum fjöleignahúss að láta af þeirri háttsemi sinni að fylgjast með nágranna sínum og hundi hans með eftirlitsmyndavélum sem þeir höfðu sett upp. Fari þeir ekki að fyrirmælum Persónuverndar gætu þeir átt yfir höfði sér 200 þúsund krónur í dagsektir.

Fram kemur í úrskurði Persónuverndar að fólkið hafi sett upp eftirlitsmyndavélar. Það grunaði að nágranni þeirra færi ekki að reglum og að hundur hans gerði þarfir sínar á sameiginlega lóð og útidyratröppur þeirra.

Þegar fólkið taldi sig hafa náð meintri háttsemi nágrannans og hunds hans á mynd sendu þeir upptökurnar til lögmanns nágrannans til sýna fram á hegðunina.

Fólkið sagði í svari sínu til Persónuverndar að merking hefði verið sett á útidyrahurð hússins á meðan vöktunin fór fram. Hún hefði verið tengd netkerfi heimilisins og upptekið efni eyðst sjálfkrafa út að tveimur dögum liðnum. Þá hefðu þau tvö ein haft aðgang að efninu sem eftirlitsmyndavélarnar tóku upp.

Nágranninn sagði í kvörtun sinni til Persónuverndar að eftirlitið hefði beinst að bæði sameign hússins og séreign hans. Slíkt bryti gegn friðhelgi einkalífs hans og fjölskyldu. Hann hefði ekki veitt samþykki sitt fyrir uppsetningu eftirlitsmyndavélanna og benti líka á að vöktunin næði einnig til almannarýmis. Hann gerði jafnframt athugasemdir við að engar merkingar hefðu verið settar upp.  

Persónuvernd telur að ef tilgangur fólkins var að afla sönnunargagna um óviðunandi umgengni nágrannans eða hunds hans hefði mátt gera það með vægari hætti. Til að mynda með tilfallandi ljósmyndatöku af háttseminni. 

Ef setja ætti upp eftirlitsmyndavélar í fjöleignarhúsi þyrfti að bera slíka ákvörðun undir löglega boðaðan húsfund. Það var því mat Persónuverndar að fólkið hefði brotið persónuverndarlög.

Persónuvernd segir í ákvörðun sinni að fari þau ekki eftir fyrirmælum geti þau átt yfir höfði sér 200 þúsund krónur í dagsektir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV