Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hraunið stækkar um 9 knattspyrnuvelli á degi hverjum

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Flatarmál hraunsins, sem runnið hefur úr gosinu í Fagradalsfjalli, hefur stækkað töluvert frá síðustu mælingu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands eða um rúmlega 60 þúsund fermetra á dag. „Það samsvarar um níu knattspyrnuvöllum á degi hverjum.“ Hraunrennslið hefur haldist stöðugt undanfarnar sex vikur og verið tvöfalt meira en það var að meðaltali fyrsta eina og hálfa mánuðinn.

Á vef Jarðvísindastofnunar kemur fram að skipta megi gosinu í Fagradalsfjalli í þrjú tímabil.

Fyrsta tímabilið stóð í tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu en þó örlítið minnkandi hraunrennsli.

Næsta tímabil einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana og stóð í hálfan mánuð en þriðja tímabilið, sem er í gangi núna, hefur staðið í átta vikur. „Á þessu tímabili hefur virknin öll verið í einum og sama gígnum og allt hraunið kemur úr honum.“   

Jarðvísindastofnun segir að gosið í Fagradalsfjalli sé frábrugðið þeim gosum sem orðið hafa síðustu áratugi. Aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði miklu um kvikuflæði.  Önnur gos eigi upptök sín í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess ráði mestu um stærð og lengd goss.

Jarðvísindastofnun telur að þrýstingur í upptökum hafi ekki minnkað að ráði. „Engin leið er á þessari stundu til að segja til um hve lengi gosið muni vara eða hvort hraunrennslið muni halda áfram að aukast.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV