Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fyrsta markalausa jafntefli mótsins

epa09271642 Goalkeeper Robin Olsen (C) of Sweden eyes the ball during the UEFA EURO 2020 group E preliminary round soccer match between Spain and Sweden in Seville, Spain, 14 June 2021.  EPA-EFE/Jose Manuel Vidal / POOL (RESTRICTIONS: For editorial news reporting purposes only. Images must appear as still images and must not emulate match action video footage. Photographs published in online publications shall have an interval of at least 20 seconds between the posting.)
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Fyrsta markalausa jafntefli mótsins

14.06.2021 - 20:57
Spánn og Svíþjóð gerðu markalaust jafntefli í lokaleik kvöldsins á EM. Bæði lið fengu ágætis færi en hvorugu liðinu tókst þó að skora.

Tíundi leikur EM fór fram í Sevilla í kvöld þar sem Spánn og Svíþjóð mættust í E-riðli. Undirbúningur spænska liðsins hefur ekki verið eins og best er á kosið. Bæði Sergio Busquets og Diego Llorente greindust með COVID-19 skömmu fyrir mót. Llorente reyndist hafa fengið falskt jákvætt próf og var því í leikmannahópi Spánverja en Busquets er enn í einangrun og var því ekki með í kvöld. 

Spænska liðið byrjaði leikinn vel og Svíar komu varla við boltann á upphafsmínútunum. Fyrsta alvöru færið kom á 17. mínútu þegar Robin Olsen, markvörður Svía, varði frábærlega skalla frá Dani Olmo. Spánverjar héldu áfram að þjarma að Svíum án þess þó að skora. Það munaði svo minnstu að Svíþjóð næði forystunni undir lok fyrri hálfleiks þegar Alexander Isak átti skot sem hafnaði í varnarmanni Spánverja og þaðan fór boltinn í stöngina. 

Leikurinn róaðist mikið í síðari hálfleik og fyrsta færið kom þegar um hálftími var eftir af leiknum. Alexander Isak fór þá illa með varnarmenn Spánar og átti fína sendingu fyrir markið þar sem Marcus Berg skóflaði boltanum yfir markið. Gerard Moreno fékk svo kjörið tækifæri til að tryggja Spánverjum öll stigin þegar hann komst í gott skallafæri á lokamínútu leiksins, skalli hans fór hins vegar beint á Olsen í markinu sem varði vel.