Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Frumvarp ráðherra endastöð stjórnarskrárbreytinga

14.06.2021 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - Alþingi
Þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram stjórnarskrárfrumvarp í eigin nafni í ársbyrjun sagðist hún bjartsýn á að Alþingi afgreiddi frumvarpið fyrir þinglok. Þess í stað gerðist það sama og í fyrri skipti sem forsætisráðherrar hafa lagt fram stjórnarskrárfrumvarp í eigin nafni án samkomulags um afgreiðslu: Ekkert.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur verið nokkurs konar fasti í lýðveldissögu Íslendinga. Við stofnun lýðveldis var ákveðið að gera aðeins þær breytingar á stjórnarskrá sem væru nauðsynlegar vegna lýðveldisstofnunar. Síðan átti að halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir fjölda nefnda sem skipaðir hafa verið til verkefnisins og tímasett markmið er enn deilt um stjórnarskrána.

Það hefur gerst í þrígang að forsætisráðherrar hafa sett fram stjórnarskrárfrumvarp í eigin nafni þegar ljóst varð að markmiðum um breytingar sem gera ætti á kjörtímabilinu yrði ekki náð. Ekkert þeirra frumvarpa náði fram að ganga.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

1983 – Gunnar Thoroddsen

Fyrsti forsætisráðherrann til að leggja fram stjórnarskrárfrumvarp í eigin nafni var Gunnar Thoroddsen árið 1983. Hann hafði verið skipaður formaður stjórnarskrárnefndar með fulltrúum allra flokka árið 1978, varð óvænt forsætisráðherra 1980 þegar hann leiddi hluta Sjálfstæðisflokksins til samstarf við Framsóknarflokkinn og Alþýðubandalagið, og lagði fram stjórnarskrárfrumvarp í lok forsætisráðherratíðar sinnar.

Gunnar var sá eini sem tók til máls um frumvarp sitt. Hann rakti hvernig stefnt hefði verið að endurskoðun stjórnarskrárinnar allt frá árum seinni heimsstyrjaldar og nokkrar nefndir skipaðar með það að markmiði. Eftir að hafa rekið efnisatriði frumvarpsins sagði Gunnar að honum væri ljóst að það yrði ekki afgreitt vegna þess hversu seint málið væri fram komið. „En það er von mín, að með því að þetta frumvarp verður lagt fram gefist bæði alþingismönnum og þjóðinni allri betri kostur en ella til þess að hugleiða þetta mikla mál.“

Í frumvarpinu voru nokkur nýmæli sem síðar urðu að veruleika, svo sem um embætti umboðsmanns Alþingis og lækkun kosningaaldurs úr 20 árum í átján. Þar voru einnig önnur nýmæli sem hafa ekki náð fram að ganga, svo sem um að festa þingræðisregluna í stjórnarskrá, leggja niður landsdóm og gefa landsmönnum færi á að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök málefni.

Mynd með færslu
 Mynd:

2016 – Sigurður Ingi Jóhannsson

Ný stjórnarskrárnefnd var skipuð haustið 2013, í samkomulagi allra flokka á Alþingi. Nefndin átti að taka mið af störfum fyrri stjórnarskrárnefnda og þróun á alþjóðavettvangi. Markmiðið var að hún skilaði af sér tillögum tímanlega fyrir lok kjörtímabilsins 2017. Ekkert varð af því. Eftir afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra eftir uppljóstranir í Panamaskjölunum var ákveðið að stytta kjörtímabilið og kjósa um haustið. Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem forsætisráðherra og lagði fram frumvarp um með stjórnarskrárákvæðum um umhverfisvernd, auðlindamál og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frumvarp Sigurðar Inga var rætt í þrjár og hálfa klukkustund í fyrstu umræðu og sent til nefndar en komst ekki aftur til umræðu á Alþingi.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

2021 – Katrín Jakobsdóttir

Í upphafi kjörtímabils kynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hugmyndir sínar um endurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum, þar sem ákveðnum atriðum yrði lokið 2017-2021 og öðrum á næsta kjörtímabili 2021-2025.

Þegar ljóst varð síðasta vetur að flokkarnir sem sæti eiga á Alþingi kæmu sér ekki saman um stjórnarskrárbreytingar lagði Katrín fram stjórnarskrárfrumvarp í eigin nafni. Þar var að finna breytingar á stöðu forseta og skýringar á valdi ráðherra og ráðherraábyrgð sem og ákvæði um þjóðareign á auðlindum og um umhverfisvernd. Auk þess var í frumvarpinu kveðið á um íslensku sem ríkismál Íslands og táknmál sem tungumál þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Fjórir af fimm stjórnarandstöðuflokkum stóðu að þremur breytingartillögum við frumvarpið sem rætt var í sjö klukkustundir í fyrstu umræðu. Þaðan fór málið til nefndar 11. febrúar en var ekki afgreitt þaðan til frekari umræðu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Tvö til viðbótar sem ekki náðu fram að ganga

Hér má bæta við upprifjun á tveimur öðrum stjórnarskrárfrumvörpum, þó þau séu frábrugðin þeim sem talin eru upp hér að ofan.

Árið 1995 lagði Davíð Oddsson fram frumvarp um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Þar sagði að nytjastofnar á hafsvæði Íslands væru sameign íslensku þjóðarinnar og að kveðið skyldi á um hagnýtingu þeirra og verndum í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Ólíkt þeim frumvörpum forsætisráðherra sem nefnd eru hér að framan var það lagt fram samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar, að kröfu Alþýðuflokksins. Það breytti því þó ekki að frumvarpið komst aldrei til umræðu í þinginu. Rúmum aldarfjórðungi síðar er enn deilt um auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Unnið hafði verið að endurskoðun stjórnarskrárinnar á fyrsta áratug aldarinnar án þess að það leiddi til breytinga. Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sprakk eftir hrun tók stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna við. Hún ákvað í samvinnu við Framsóknarflokkinn og Frjálslynda flokkinn að leggja fram stjórnarskrárfrumvarp fyrir kosningar 2009 þar sem var að finna auðlindaákvæði, gert ráð fyrir stjórnarskrárbreytingum í þjóðaratkvæðagreiðslu og heimild til þess að fimmtán prósent kjósenda gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Loks var kveðið á um stjórnlagaþing sem endurskoða ætti stjórnarskrá. Málið fluttu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Þá var nýkjörinn formaður Framsóknar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ekki orðinn þingmaður. Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn stjórnarskrárbreytingunum og varð þaulsetinn í þingsal og að lokum lýsti Framsóknarflokkurinn því yfir að réttast væri að falla frá frumvarpinu.

Þingmönnum hafnað hundrað sinnum

Þessu til viðbótar má nefna að einstakir þingmenn hafa hundrað sinnum lagt fram frumvörp um stjórnarskrárbreytingar. Frumvörpin voru alla jafna um afvikin málefni en eitt fól í sér nýja stjórnarskrá. Það lagði Ólafur Þ. Þórðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, fram árið 1986.

Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, lagði fyrstur þingmanna fram stjórnarskrárfrumvarp á lýðveldistímanum, árið 1946.