Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fjörutíu þúsund bólusett í vikunni

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fjörutíu þúsund manns verða bólusettir í þessari viku með fjórum bóluefnum. Átján þúsund fá bóluefni frá Pfizer. Tíu þúsund þeirra fá 10 þúsund fyrri skammt. Þrettán þúsund og fimm hundruð verða bólusett með Janssen-bóluefninu og 2.600 fá seinni skammt AstraZeneca. Fimm þúsund og fimm hundruð verða bólusett með bóluefninu frá Moderna. Fjórtán hundruð þeirra fá fyrri skammt.

Þetta kemur fram á vef landlæknis. Stjórnvöld stefna að því að allir þeir, sem til stendur að bólusetja, verði búnir að fá boð í bólusetningu 25. júní. 

Á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að í dag verði bólusett með bóluefni Janssen.

Þetta eru karlar sem fæddir eru 1981, 1984, 2001 og 2002 og svo konur fæddar 1976, 1979, 1993 og 1997. Eftir klukkan tvö í dag geta þeir sem eiga eldra boð í Janssen komið og fengið bólusetningu á meðan birgðir endast.

Á morgun verður síðan bólusett með Pfizer og á miðvikudag með bóluefni frá Moderna. 

Heldur fleiri skammtar berast af bóluefni AstraZeneca í júní en búist hafði verið við. Von er á rúmlega 20 þúsund skömmtum í næstu viku og verða þeir allir notaðir í seinni bólusetningu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV