Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Erlend kortavelta tvöfaldast milli mánaða

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Augljós batamerki eru á íslenskri ferðaþjónustu að svo miklu leyti sem erlend kortavelta er vísbending þar um. Erlendri kortaveltu vex hratt ásmegin eftir langvarandi niðursveiflu vegna kórónuveirufaraldursins og mældist aukning hennar á milli apríl og maí 2021 heil 95%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Aukning á innlendri sem erlendri kortaveltu

Aukning erlendrar kortaveltu á milli ára er næstum fjórföld á meðan innlend kortavelta jókst um 10% á milli ára. Heildargreiðslukortavelta í maí var 86,3 milljarðar krróna og jókst um 23% á milli mánaða og um 15,7% samanborið við maí 2020. Með heildarkortaveltu er átt við samanlagða innlenda og erlenda kortaveltu í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé.

363% aukning milli ára

Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis hefur tekið stökkbreytingum milli ára þegar maímánuður er skoðaður. Erlenda kortaveltan var 363% hærri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra. Kortavelta erlendra ferðamanna var 6,5% af heildarkortaveltu í maí hér á landi en í apríl var það hlutfall aðeins 4%. Til samanburðar má geta að sama hlutfall var 22,3% í maí 2019 sem er einmitt síðasti venjulegi maímánuður fyrir kórónuveirufaraldur.

Bandaríkjamenn atkvæðamestir

Erlendir ferðamenn frá Bandaríkjunum eru sem fyrr atkvæðamestir erlendra ferðamanna þegar kemur að notkun greiðslukorta hér á landi. Alls voru þeir ábyrgir fyrir 67,2% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í maí en Þjóðverjar og Bretar koma næstir með 7% og 6,5%.