Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Ég er voða mikið að koma aftur“

Mynd: RÚV / Helga Braga Jónsdóttir

„Ég er voða mikið að koma aftur“

14.06.2021 - 15:27

Höfundar

Helga Braga Jónsdóttir leikkona hefur aldrei verið eins upptekin og á liðnu ári. Í miðjum heimsfaraldri tók hún upp á því að fara í leiðsögunám. Samhliða því hefur hún tekið að sér stór leiklistarverkefni, þar á meðal í Netflix-þáttaröðinni Kötlu.

Helga Braga segist nú eiga endurkomu inn í íslensku leiklistarsenuna. Þegar litið er yfir listann sést að það eru engar ýkjur. Hún steig á svið í fyrsta sinn í átta ár í leikverkinu The Last Kvöldmáltíð og fyrir frammistöðu sína þar hlaut hún tilnefningu til Grímuverðlauna. Hún fer með eitt aðalhlutverka í Saumaklúbbnum, nýrri íslenskri kvikmynd sem frumsýnd var fyrir stuttu. Þá mun hún einnig birtast í nýju Netflix-þáttaröðinni Kötlu sem  verður frumsýnd 17. júní. 

Meðfram þessum krefjandi verkefnum og í miðjum heimsfaraldri tók hún ekki upp á því að byrja að hekla eða taka til í bílskúrnum, heldur ákvað hún að drífa sig í nám í Leiðsöguskóla MK. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt nám og ég mæli með því,“ segir hún í samtali við Mannlega þáttinn á Rás 1. Námið segir hún alveg dásamlegt og fræðandi. „Maður lærir allt um jarðfræði,“ segir hún, og það sé einmitt svo skemmtilegt að vera örlítið fróður um jarðfræði þessa dagana.

Þá segist hún hafa lært allt í sambandi við íslenskt samfélag. Telur hún upp veðurfræði og gróðurfræði, bókmenntasögu og tónlistarsögu, stjórnmál og leiklist. „Þetta er okkar arfur sem við segjum frá og erum stolt af.“ Fólk sé nefnilega ekki bara að koma til að sjá náttúruna heldur vilji það líka kynnast menningunni.  

„Það er náttúrulega annar hver leikari leiðsögumaður á sumrin,“ segir hún um hvort leiklistin nýtist ekki vel í leiðsögumannsstarfinu. „Maður kann að nýta röddina og er ekki eins stressaður að koma fram,“ og bætir við að leikurum finnist ekki leiðinlegt að tala.

Rætt var við Helgu Brögu Jónsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1.  

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Katla frumsýnd á þjóðhátíðardaginn

Menningarefni

„Það er þungt að borga skuldir annarra“