Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Breskur fyrrum bóndi á níræðisaldri slær óvænt í gegn

14.06.2021 - 05:26
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot af Youtube - RÚV
John Butler er löngu sestur í helgan stein. Hann var bóndi í mörg ár í Bakewell í Derbyshire á Englandi og að eigin sögn hefur hann alltaf verið hálf utan gáttar og fann fyrir litlum áhuga fólks á sér. En silkimjúk og notaleg rödd hans og lífsviðhorf hefur slegið í gegn á Youtube og hjálpað fólki að takast á við faraldurinn.

BBC fjallar um sögu Butler á vef sínum. Butler hefur undanfarið notið mikilla vinsælda meðal fólks sem stundar það sem kallast ASMR, sem er einhverskonar líkamleg örvun með hljóðum, strokum, nuddi og krumpi. Það má lýsa því eins og þegar hár rísa á höndum fólks þegar því kitlar við að hvíslað er í eyra þess. Víðsjá kafaði ofan í fyrirbærið fyrir nokkrum árum.

Butler hefur alla sína búskapartíð lifað einföldu lífi og stundað hugleiðslu, núvitund og heimspeki sjálfum sér til yndisauka og ánægju. Árið 2016 veitti hann viðtal sem sló heldur en ekki í gegn hjá þeim sem stunda ASMR en frásagnaeiginleikar hans og lífsviðhorf hefur hjálpað fólki að takast á við félagslega einangrun og takmarkanir í faraldrinum.

„Ég hafði aldrei heyrt um Youtube. Vissi varla hvað internetið væri. Ég væri eflaust æstari yfir þessum vinsældum ef ég væri yngri maður, “ segir Butler. Hann segist ekki vita nákvæmlega um hvað ASMR snýst, en það sé eftir því sem honum skilst ekki ósviptað hugleiðslu.